Þeir bitlingar, sem pólitíkusar úthluta til stuðningsmanna…
sinna, eru misfeitir. R-listinn hefur nú þegar úthlutað allmörgum góðum bitum eins og menn þekkja, enda á kjörtímabilinu verið ráðið í a.m.k. 20 nýjar toppstöður hjá borginni, og virðist hin nýja stétt embættismanna borgarinnar skiptast upp flokkspólitískt á svipaðan hátt og borgarstjórnarflokkur listans. En sumir bitarnir (eða kúlurnar) eru smærri og mátti á laugardaginn sjá hver sá nýjasti er. Á forsíðu Dags-Tímans kemur fram að Umhverfismálaráð borgarinnar hafi ráðið sérstakan verkefnisstjóra til þess að stýra átaki gegn því að fólk hendi tyggjói (notuðu) á götur borgarinnar. Verkefnisstjórinn, sem á að hafa með höndum þetta mikilsverða verkefni, er Sigþrúður nokkur Gunnarsdóttir, sem til skamms tíma var formaður ungra Alþýðubandalagsmanna í Reykjavík. Nú er bara að sjá hvort forystumenn ungliða í hinum R-listaflokkunum fá einhverja svipaða bitlinga, t.d. í átaki gegn því að menn hendi pylsubréfum út um bílglugga, átaki gegn því að fólk hræki á göturnar o.sv.frv. Ljóst er að víða þarf að taka til hendinni þannig að R- listinn getur áreiðanlega komið fjöldamörgum skjólstæðingum sínum á þessa jötu áður en kjörtímabilinu lýkur.
Í sama tölublaði DT er frétt á bls. 15, sem einnig vekur…
athygli. Þar er greint frá því að forsetaskrifstofan hafi gefið út litprentaðan bækling með ýmsum myndum af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni. Bæklingurinn er til þess gerður, að auðvelda fólki val á ljósmyndum af forsetanum, en samkvæmt frétt blaðsins er nokkur eftirspurn eftir slíkum myndum. Myndirnar, sem sýndar eru í bæklingnum, eru af forsetanum brosandi, forsetanum minna brosandi (en þó nokkuð sposkum á svip), forsetanum í kjólfötum með orðu og forsetanum í dökkum jakkafötum. Fyrir þá sem ekki kusu sér forseta síðasta sumar heldur forsetafrú er völ á myndum af herra Ólafi Ragnari og Guðrúnu Katrínu saman, bæði í civil og í hátíðarbúningi, og jafnvel geta sérstakir aðdáendur forsetafrúarinnar keypt mynd af henni einni á skautbúningi. Einn er þó galli á myndabæklingnum. Fyrir þá sem lengi hafa verið aðdáendur Ólafs Ragnars vantar ýmsar myndir. T.d. er engin mynd af honum í Keflavíkurgöngu, ekki heldur í ræðustól á Alþingi að berjast gegn álverinu í Straumsvík eða EES-samningnum. Ekki eru heldur myndir af honum að bera lof á kommúníska einræðisherra í þriðja heiminum og Austur- Evrópu, né heldur þar sem hann afneitaði því að vera kristinnar trúar eða þar sem hann hækkar skatta á alþýðuna. Það á sér líklega þá skýringu að þessar myndir eru ekki mjög ,,myndrænar“, þannig að forsetaskrifstofan er líklega að bíða eftir því að fá tækifæri til að gefa út á hljóðsnældu ræðubrot forsetans.