Kristján Loftsson hvalveiðimaður sendir Samkeppnisstofnun tóninn…
í Tímanum á dögunum vegna úrskurðar stofnunarinnar um sameiningu Flugleiða innanlands og Flugfélags Norðurlands. Kristján spyr þar hvað Samkeppnisstofnun gerði ef veitingastaðirnir Vegas og Óðal sameinuðust. Þar yrði eflaust ,,einokun á tvíræðum markaði“! Samkeppnisstofnun myndi eflaust láta þar til sín taka, setja reglur um hve oft hver dansmær mætti koma fram í hvoru húsi, dansar mættu ekki vera nema svo og svo líkir á stöðunum, verð mættu ekki vera hin sömu þótt lág væru og svo framvegis. Hinn eiturskarpi framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, Jóhannes Gunnarsson, myndi eflaust telja samrunann mikið áfall fyrir neytendur og myndi sjálfsagt hvetja Samkeppnisstofnun til að banna hann.
En svo áfram sé talað um Samkeppnisstofnun og samruna…
Flugleiða innanlands og Flugfélags Norðurlands, hvað ætli vitringarnir hjá Samkeppnisstofnun hefðu gert ef Flugfélag Norðurlands hefði hætt starfsemi, t.d. orðið gjaldþrota? Þá hefðu Flugleiðir innanlands verið einar á stórum markaði. Ætli Samkeppnisstofnun hefði ekki bara gert sér lítið fyrir og ,,bannað” Flugfélagi Norðurlands að hætta? Það er aldrei að vita upp á hverju þeir menn, sem telja sig hafa vald til að ,,tryggja samkeppni“, kunna að taka. Að minnsta kosti er ljóst að stofnunin hefði bannað Flugleiðum að tilnefna alla stjórnarmenn í félagið sem væri eitt á markaðnum.
Það er svo rétt að minna á að Samkeppnisstofnun er framlenging á því sem hét Verðlagsstofnun og er dæmi um að ríkisstofnanir deyja sjaldan hversu fáránlegar sem þær eru heldur skipta þær bara um nafn og númer. Fjármálaráðherra hefur gjarna nefnt slíkan sósíalisma í sauðargæru nútímavæðingu.