Eins og menn vita gilda á Íslandi sérstök lög um mannanöfn…
og í samræmi við þau starfar sérstök mannanafnanefnd er úrskurðar um hvort heimilt sé að nefna barn nafni sem enginn hefur borið hér fyrr. Hafa þessi lög verið mörgum þyrnir í augum og segja margir óeðlilegt að menn megi ekki heita það sem þeir sjálfir vilja. Er sjálfsagt ýmislegt til í slíkri kröfu, en hins vegar verður ekki sagt að mannanafnalögin taki af mönnum öll völd í því sambandi. Tvö dæmi eru nærtæk um það hve fólk á í raun auðvelt með að ganga undir þeim nöfnum er það sjálft kýs. Í fyrsta lagi dettur engum nema Hagstofunni í hug að nefna söngvarann Bubba Morthens, Ásbjörn Kristinsson. Þar er greinilegt dæmi um mann sem tekur sér nafn án þess að spyrja hið opinbera neins í því sambandi. Annað gott dæmi er núverandi forsetafrú lýðveldisins. Eins og menn vita notaði hún jafnan nafnið Guðrún K. Þorbergsdóttir en eiginmaður hennar og vinir allir kölluðu hana opinberlega aldrei annað en Búbbu. Þegar kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar hófst svo í fyrravor tóku þau svo aðra stefnu, og eiginmaður hennar sagði þá jafnan opinberlega ,,við Guðrún Katrín“ þetta og ,,við Guðrún Katrín” hitt. Nú er hún heldur aldrei nefnd annað en Guðrún Katrín Þorbergsdóttir, nafni sem ekki er vitað til að hún hafi notað fyrstu 60 ár ævinnar. Þessi tvö dæmi eru lýsandi um hversu fólk getur sjálft ákveðið hvað það heitir og er fagnaðarefni að ríkið geti ekki haft algera stjórn á því eins og svo mörgu öðru.
Ritstjórinn sem kemur á sjónvarpsskjái landsmanna þessa dagana…
og segir þeim að þeir séu kjánar að kaupa Moggann frekar en blaðið sitt ritar leiðara á svipuðum nótum í gær. Af einhverjum ástæðum gengur ritstjórinn hins vegar ekki jafn hreint til verks og hljómsveitin Botnleðja sem segir einfaldlega ,,Fólk er fífl“. Engu að síður er það boðskapur ritstjórans sem skrifar um lífeyrismál í þessum leiðara. Honum finnst sjálfsagt að skylda alla til að greiða í sameignarsjóðina sem hinir miklu snillingar frá ASÍ og VSÍ stjórna. Hann vill banna fólki að greiða í séreignarsjóði og segir það fólki fyrir bestu enda geti slíkir sjóðir klárast ef fólk verður of gamalt! Þetta eru ekki bara órökstuddir sleggjudómar um fólk sem kýs að greiða í séreignarsjóðina heldur bera skrifin vott um algjört þekkingarleysi á lífeyris- og tryggingamálum. Ef ritstjórinn hefði kynnt sér málin vissi hann að margir þeirra sem greiða í séreignarsjóði nú munu einfaldlega hætta að greiða í lífeyrissjóði verði ekki kostur á öðru en sameignarsjóðum. Þá vissi hann ef til vill líka að tryggingarfélög bjóða félögum séreignarsjóða samninga um mánaðarlegar greiðslur til æviloka gegn eigninni í sjóðnum. Þessir samningar eru mun sveigjanlegri að þörfum hvers og eins en greiðslur sameignarsjóðanna. Sameignin ein og sér tryggir heldur ekki trausta afkomu sjóða. Þvert á móti. Mörg dæmi eru um það hér að fólk hafi árum og áratugum saman greitt í sameignarsjóði sem gufað hafa upp. Sameignarsjóðirnir búa heldur ekki við það aðhald sem séreignarsjóðirnir búa við enda eru það gömul sannindi að það sem allir eiga hirðir enginn um. Af hverju heldur ritstjórinn að fólk sem hefur val í dag velji fremur séreignarsjóð en sameignarsjóð? Má benda honum á að það gæti verið af sömu ástæðu og fólk kaupir DV og Moggann frekar en Dag-Tímann.