Það hefur vakið athygli hve harkalega Vilhjálmur H. Vilhjálmsson,…
fráfarandi formaður Stúdentaráðs, hefur ráðist að Framsóknarflokknum fyrir nýtt lagafrumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Sérstaklega þar sem Einar Skúlason, helsti samstarfsmaður formannsins undanfarið ár og fráfarandi framkvæmdastjóri Stúdentaráðs, er gjaldkeri ungra framsóknarmanna. Þykir mönnum augljóst að formaðurinn sé að launa ungum framsóknarmönnum lambið gráa. Vilhjálmur var nefnilega einn af hvatamönnum þess að einn eitt félag vinstri manna, Gróska, var stofnað á dögunum. Nú þegar ljóst þykir að félagið hefur farið út um þúfur er leitað að blóraböggli. Ungir framsóknarmenn neituðu að taka þátt í stofnuninni og kenna aðstandendur Grósku þeim um hvernig fór.
Eins og menn muna var stofnun Grósku mikil sýning. Dugði ekki minna…
en Loftkastalinn undir stofnfundinn, sem auglýstur var með heilsíðuauglýsingum í Morgunblaðinu og Alþýðublaðið, Helgarpósturinn og Vikublaðið nýtt til ítrustu kynningar. Það urðu því óneitanlega nokkur vonbrigði þegar frá stofnfundinum leið og menn sáu að félagið var bara enn einn loftkastali vinstri manna um sameiningu. Margir, bæði til vinstri og hægri, höfðu vonað að loksins væri komið að því að menn sem kenna sig við félagshyggju sýndu þann félagsþroska að starfa saman í einum flokki og þjóðin fengi frið fyrir umræðum um ,,sameiningarmálin“. Hafa menn haft á orði að réttara hefði verið að nefna félagið Gjósku – enda mikið púður í byrjun en svo hafi allt fokið út í veður og vind.