Forstjórar verkalýðsfélaga nefna iðulega…
þessa dagana að svo og svo mikið sé í verkfallssjóði. Mætti helst ætla að þeir hefðu prívat og persónulega dregið upp veskið og lagt í þessa sjóði. Hið rétta er að partur af þeim órétti sem margir launamenn eru beittir þegar þeir eru þvingaðir til að að gerast félagar í verkalýðsfélögum er að þeir eru látnir greiða hluta af launum sínum í þessa verkfallssjóði. Nú þegar mörg félög hafa samið til þriggja ára er eðlilegt að verkfallssjóðunum sé skilað til réttra eigenda sinna.
Í umræðum um sjálfræðisaldur, sem spunnust vegna frumvarps…
dómsmálaráðherra um lögræðislög þar sem gert er ráð fyrir óbreyttum 16 ára sjálfræðisaldri, bentu Bryndís Hlöðversdóttir, Alþýðubandalagi, og Guðný Guðbjörnsdóttir, Kvennalista, á að útgjöld hins opinbera til barnaverndarmála og vegna barnabóta myndu aukast ef sjálfræðisaldurinn yrði hækkaður í 18 ár. Jafnvel þótt það hafi ekki verið ætlun þeirra eru þingkonunum færðar þakkir fyrir að benda á þessi rök gegn hækkun sjálfræðisaldursins sem bætast við fjölmörg önnur sem fyrir liggja. Ekki veitir af öflugum málflutningi gegn þeirri forræðishyggju sem hækkun sjálfræðisaldursins úr 16 árum í 18 væri.
Samkvæmt samkeppnislögum mun fyrirtækjum óheimilt…
að auglýsa vörur sínar með efsta stigi lýsingarorðs. Þannig er bannað að auglýsa að eitthvað sé best, hagstæðast eða fallegast. Væntanlega er einnig bannað að auglýsa verst, óhagstæðast og ljótast þótt Samkeppnisráð hafi enn ekki fengið þau orð til umfjöllunar. Auglýsendur hafa því brugðið á það ráð að nota miðstig (t.d. betra, ódýrara og fallegra) án þess að geta samanburðar eins og hefð er fyrir í íslensku máli. Raunar nota sumir spurningarmerki á eftir efsta stigi enda mun þá ekki lengur vera um fullyrðingu að ræða samkvæmt úrskurði samkeppnisyfirvalda. Það er hálfbroslegt að eigendum fyrirtækja sé bannað með þessum hætti að segja skoðun sína á vörunni eða þjónustunni sem þeir bjóða. Hverjum þykir jú sinn fugl fegurstur. Af hverju er eigendum fyrirtækja meinað að segja sína skoðun en öðrum ekki? Og svo sitja ábúðarmiklir embættismenn á Samkeppnisstofnun og álykta um hvort kartöfluflögur megi auglýsa sem ,,Þær bestu“ eða ,,Þær betri” eða ,,Þær bestu?“. Hvaða endaleysa er þetta eiginlega?