Í Degi-Tímanum í gær er viðtal við…
nýkjörinn formann Stúdentaráðs Harald Guðna Eiðsson Guðnasonar sendiherra og Döllu Ólafsdóttur Grímssonar forseta nýráðinn framkvæmdastjóra ráðsins. Í viðtalinu kemur fram að embætti formanns og framkvæmdastjóra séu ,,einu launuðu störfin á vegum Stúdentaráðs“. Þetta er ekki rétt en ekki er gott að ráða af viðtalinu hvort það eru höfðingjabörnin eða blaðamaðurinn AI sem segja ósatt um þetta atriði. Ritstjóri Stúdentablaðsins, sem Stúdentaráð gefur út, er á launum. Það er starfsmaður Atvinnumiðlunar námsmanna einnig.
Í viðtalinu er einnig haft eftir Döllu og Haraldi um þá staðreynd að þau eru bæði börn hinna frægu feðra sinna: ,,Við höfðum ekki einu sinni áttað okkur á þessu. En fréttamenn hafa verið að benda okkur á þetta.” Hver segir svo að fréttamenn upplýsi fólk ekki um ýmislegt?
Því má svo bæta við úr því að minnst er á Stúdentaráð að það er skilyrði fyrir innritun í Háskóla Íslands að menn greiði Stúdentaráði félagsgjöld. Forsvarsmenn Stúdentaráðs hafa hingað til ekki viljað taka þá áhættu að stúdentar ráði því sjálfir hvort þeir séu félagar eða ekki. Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, flutti líka lagafrumvarp á síðasta ári sem tryggði að Stúdentaráð þarf ekki að sannfæra stúdenta um kosti þess að vera félagi í ráðinu. Líklega meta bæði ráðið og ráðherrann það vonlaust verk.
Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, ritar grein…
í Morgunblaðið í gær undir fyrirsögninni ,,Siggi dipló“. Þar segir lögmaðurinn: ,,Þessa dagana eru fluttar af því fréttir að ákæruvald fari fram með málatilbúnað gegn öldruðum leigubílstjóra fyrir þá sök að hann skuli ekki vilja hætta að vinna. Hann er kallaður Siggi dipló. Þessi heiðursmaður mun vera orðinn 76 ára gamall. Það er búið að setja lög í landinu um að slíkir menn skuli sviptir réttindum til að stunda atvinnu sína sem leigubílstjórar hvað sem líði heilsuhögum þeirra og hæfni til að aka. Samkvæmt heimild í almennum umferðarlögum hafa verið settar reglur um að þeir sem orðnir eru 70 ára geti ekki fengið framlengt ökuleyfi sitt nema um takmarkaðan tíma í senn. Til að fá slíka framlengingu þurfa þeir að undirgangast læknisskoðun og framvísa vottorði um heilsufar sitt. Er þetta ekki nóg? Af hverju má Siggi dipló ekki keyra leigubíl áfram ef hann uppfyllir þessi almennu skilyrði og hefur gilt ökuleyfi upp á vasann? Það er vegna þess að öflugur þrýstihópur ,,Frama”-potara hefur fengið löggjafarsamkunduna til að setja lagafyrirmæli um að svipta skuli leigubílstjóra atvinnuleyfinu við tiltekinn aldur.“
Frá því er einnig sagt í Morgunblaðinu í gær að…
Evrópusambandið hafi varað Slóvakíu við að gera fríverslunarsamning við Rússland. Haft er eftir Leon Brittan, sem fer með utanríkisviðskiptamál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að þar sem ESB hafi ekki sjálft gert fríverslunarsamning við Rússland yrði Slóvakía að rifta slíkum samningi ef hún fengi aðild að Evrópusambandinu.