Miðvikudagur 12. mars 1997

71. tbl. 1. árg.

Í Mogganum 7. mars er sagt frá skemmtilegri tengingu skólakerfisins…
og atvinnulífsins. Níundu bekkingar í Austurbæjarskóla lærðu um stund sína stærðfræði með því að ,,versla“ á hlutabréfamarkaðinum, og sjá síðan af daglegu gengi þeirra bréfa sem þeir ,,áttu hvort þeir væru að hagnast eða tapa á ,,viðskiptunum. Þetta var reyndar gert með ímynduðum peningum, en eftir fréttinni að dæma hefðu flest ungmennin aukið vasapeningana töluvert ef um alvöru þorskkrónur hefði verið að ræða. Í lok fréttarinnar vitnar Mogginn í Sverri Ragnarsson kennara, sem hafði frumkvæði af þessu: ,,Tilgangurinn með þessu er þó fyrst og fremst sá að opna augu þeirra fyrir þessu fyrirbæri sem hlutabréfamarkaðurinn er og vekja þau til umhugsunar um gildi sparnaðar. Einnig eykst skilningur þeirra fyrir því hvaða áhrifaþættir koma inn í slík viðskipti. Fleiri svona kennara – einræktum Sverri!

Halldór Jónsson, verkfræðingur, á grein í Mogganum 6. mars sem nefnist…
því æði undarlega nafni ,,Þambaravambarþambarí. Höfundur, sem áður hefur ritað nokkrar greinar um ýmis mál, fer sem fyrr háðulegum orðum um gerræðið og forræðishyggjuna, sem á sér því miður alltof marga málsvara á Alþingi. Hafi lesendur Vefþjóðviljans flett framhjá grein þessari er mælt með því að þeir finni hana hið snarasta og lesi, því Halldóri er skarpur og skemmtilegur penni, sem hittir oftar en ekki naglann á höfuðið. Án þess að eyðileggja neitt fyrir væntanlegum lesendum má vitna hér í brot úr greininni: ,,Ég sé enn í hillingum hinar horfnu stofnanir á borð við Fjárhagsráð og gjaldeyrirsnefndina á Skólavörðustíg, skömmtunarskrifstofuna, verðlagsstjóra og gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og það setur að mér hroll. Skyldi mörgum virkilega finnast að heimurinn hafi versnandi farið við það að þessar stofnanir hurfu? Vísast til ekki, og vonandi munu svipuð nátttröll, sem enn þá eru við lýði, hljóta sömu örlög og þau sem Halldór taldi hér upp.