Græni bílaskatturinn hefur hækkað um 80%

Íslenska kolefnisgjaldið bitnar sérstaklega á tekjulágum. Gjaldið er nýtt til skemmdarverka á lífríkinu í öðrum löndum.

Kolefnisgjald á bensín og Diesel hefur hækkað um 80% á undanförnum 4 árum. Gjaldið er lagt á hvern lítra eldsneytis. Þessi skattur, ásamt öllum hinum bílasköttunum, bitnar sérstaklega á efnalitlu fólki sem er á mörkum þess að geta haldið úti bíl. Annað hvort þarf fólkið að losa sig við bílinn með þeim takmörkunum sem því fylgir eða neita sér um að sinna öðrum þörfum.

Og nei það er ekki kostur fyrir alla að taka strætó eða hjóla. Og já sumt fólk vill einfaldlega nota bíl. Og sumt fólk hefur hvorki efni á rafbíl né hefur aðstöðu til að hlaða hann.

Það eru 270 þúsund fjölskyldubílar og bifhjól í landinu sem ganga fyrir bensíni eða Diesel. Þegar bílar sem ganga fyrir öðrum orkugjöfum verða hagstæðari í verði munu þeir leysa þennan flota af hólmi að mestu leyti. Hví að beita skattkerfinu til að það gerist áður en það verður hagkvæmt?

Bara enn einn bílaskatturinn

losunco2_2017

Það er áhugavert að aðeins vegasamgöngur og útgerð bera þetta kolefnisgjald. Þó stafar aðeins um 10% heildarlosunar Íslands á CO2 frá þessum geirum. Kolefnisgjaldið stendur því vart undir nafni þegar 90% kolefnislosunar eru undanþegin. Það er bara eins og hver annar skattur sem einkum er lagður á bíleigendur og var þó nóg af slíkum sköttum fyrir.

Vinstri grænt reyndist ekki grænt

Hreina vinstri stjórnin lagði kolefnisgjaldið á árið 2010. Um leið var svonefndu lífeldsneyti veitt samsvarandi skattaívilnun. Í stað þess að kolefnisgjaldið renni í ríkissjóð rennur það til innkaupa á dýru og orkusnauðu lífeldsneyti. Það endar því í vasa lífeldsneytisframleiðenda.

Vinnsla lífeldsneytis stuðlar að eyðingu regnskóga og annars lífríkis, hefur áhrif á matvælaverð og ýtir undir þrældóm kvenna og barna á ökrunum. Þetta hefur legið fyrir frá upphafi en  kom nýlega fram í greinargerð þingmanna vinstri flokkanna með tillögu um að banna innflutning hluta þessa eldsneytis.

Blessaðir vinstri flokkarnir vilja nú banna það sem þeir þvinguðu menn áður til að nota í þágu umhverfisins.

Sama stefna og hærri skattar

En vel að merkja þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með þessi mál í fjármála- og iðnaðarráðuneytinu undanfarin 8 ár. Hann hefur hert á stefnunni frá hreinu vinstri stjórninni og hækkað skattana sem hún lagði á.