Íslendingar eru enn áreittir á leiðinni heim

Ólögmæt tvöföld lífsýnataka, rakning, yfirheyrslur og hótanir á landamærunum.

Í hinni gömlu góðu stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er þessi grein:

Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.

Þetta er alveg fortakslaust hvað íslenska ríkisborgara varðar. Þeir mega koma heim. Sá réttur verður ekki af þeim tekinn, hvorki með lögum né reglugerðum. Í sömu grein segir hins vegar að „með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins.“

(Í framhjáhlaupi fyrir þá sem halda því fram að stjórnarskráin sé óbreytt frá 1944 má svo geta þess að þetta ákvæði kom inn í stjórnarskrána árið 1995.)

Þrátt fyrir þennan fortakslausa stjórnarskrárbundna rétt Íslendinga til að snúa heim hafa stjórnvöld að undanförnu lagt að flugfélögum að flytja Íslendinga ekki heim til Íslands nema að uppfylltum ýmsum fráleitum skilyrðum. Hafa jafnvel verið settar reglugerðir án lagastoðar í þeim tilgangi. Þessar reglur eru ekki aðeins án lagastoðar heldur beinlínis í andstöðu við hið fortakslausa ákvæði stjórnarskrár.

Hér er átt við kröfu um forskráningu á margvíslegum persónuupplýsingum áður en stigið er um borð í flugvél erlendis. Þá hefur jafnframt verið gerð krafa um bólusetningarvottorð (bólusettir smita þó líka) og vottorð um skimun fyrir brottför. Einu gildir hvort menn séu að koma frá löndum þar sem færri smit greinast en á Íslandi. Flestir Íslendingar eru þar að auki bólusettir.

Mjög misjafnt er hvort flugfélög og flugvallarstarfsmenn erlendis ganga eftir þessum upplýsingum og skilyrðum sem íslensk stjórnvöld setja Íslendingum fyrir heimför. Kröfur af þessu tagi eru enda óvenjulegar svo ekki sé meira sagt.

Þegar heim er komið tekur við öngþveiti í komusal þar sem farið er gjörsamlega gegn öllum reglum og ráðum yfirvalda um sóttvarnir. Úr þvögunni draga strikamerkjasmalar menn í dilka og yfirheyra hvern og einn um ferðir, fjölskylduhagi, vottorð, forskráningar, bólusetningar og skimar. Jafnvel þótt menn séu með nokkurra klukkustunda gamalt neikvætt próf frá landi með lægri smittíðni en Ísland eru menn þvingaðir í annað próf við komuna til landsins undir hótunum um sóttkví og sektir.