Hafðu strikamerkið tilbúið

Nokkur orð um ofskimanir og afleiðingar.

Myndirnar hér að neðan sýna fjölda jákvæðra skimana fyrir kórónuveirunni. Myndin til vinstri sýnir skimanir innanlands. Myndin til hægri sýnir skimanir ferðalanga á landamærunum. Stærstan hluta þessa tímabils var tvöföld skimun með 5 daga sóttkví á milli á landamærunum.

Myndirnar eru af upplýsingavef stjórnvalda um þróun veirufaraldursins og sýna uppsafnaðan fjölda jákvæðra skimana frá 15. júní 2020 til 30. ágúst 2021.

Falskt neikvætt

Af þeim sem greinast með virkt smit á landamærunum greinast 31% ekki fyrr en í seinni skimun. Þegar 31% fá falska neikvæða niðurstöðu úr fyrri skimun er það ekki vísbending um að næmi hinna margrómuðu PCR prófa eins og þau eru framkvæmd hér sé innan við 69%?

Auðvitað var það ákveðin viðurkenning á því að næmi prófanna væri ekki viðunandi við þessar aðstæður þegar menn tóku upp tvöfalda skimun á landamærunum.

En þegar svo stór hluti fær falska neikvæða niðurstöðu vaknar spurning um falska öryggið sem prófið veitir í einföldum innanlandsskimunum. Hvaða áhrif hefur það á hegðun fólks að fá neikvæða niðurstöðu úr svona prófi? Hvað hafa margir verið sendir glaðir í bragði út í samfélagið með falska neikvæða niðurstöðu?

Falskt jákvætt

Um 40% (680 af 1712) af þeim sem mælast jákvæðir á landamærunum eru síðan greind með mótefni. Þessi stóri hluti reyndist því ekki með „virkt“ smit. Það er ansi hátt hlutfall sem fær þarna jákvæða niðurstöðu í skimun á landamærunum en reynist síðan ekki með „virkt“ smit.

En þegar horft er á myndirnar hér að ofan vaknar sú spurning hvers vegna enginn sem greinst hefur jákvæður innanlands hafi mælst með mótefni.

Hvers vegna eru aðeins ferðalangar flokkaðir eftir virku og óvirku smiti?

Íslands þúsund ár

Þær frelsissviptingar í nafni sóttvarna sem menn hafa látið reyna á fyrir dómi hafa verið dæmdar ólögmætar vegna þeirrar verndar sem stjórnarskráin veitir borgurunum.

Nær 1 milljón PCR skimana hefur farið fram hér á landi (landamæra- og innanlandsskimanir) frá upphafi faraldursins. Um 1% eða 10 þúsund manns hafa greinst jákvæðir. Þeir hafa allir verið lokaðir inni í einrúmi og fólk í nálægð við þá sett í sóttkví. Íslendingar hafa nú setið yfir 1.000 ár í einangrun og sóttkví. Það er því eins gott að þessar skimanir séu á traustari grunni en regluverkið um sóttkví hefur reynst.

Án þess að hér verði nokkuð fullyrt um hlutfall falskra jákvæðra skimana blasir við að þó það sé aðeins 0,1% hafa mörg hundruð Íslendingar verið settir í einangrun að ósekju og vinir, vandamenn og vinnufélagar þeirra settir í tilefnislausa sóttkví. Þetta er vandinn við miklar skimanir á fólki með mjög lágt raunverulegt smithlutfall. Þá getur hlutfall falskt jákvæðra orðið mjög hátt miðað við raunverulega jákvæða.

Enginn skyldi vanmeta það álag að vera greindur með sjúkdóm. Ekki síst sjúkdóm sem stjórnvöld og fjölmiðlar hafa fjallað um á þann ofsafengna hátt sem raun ber vitni. Það er mannskemmandi.

Ofskimanir eru sóun

Þeim tíma og fjármunum sem varið er í skimanir og innilokun á einkennalausu fólki verður ekki eytt annars staðar í heilbrigðiskerfinu. Þau verðmæti sem verða ekki til vegna þess að heilbrigt fólk er lokað inni nýtast hvorki í heilbrigðiskerfinu né annars staðar.

Skimanir hafa auðvitað sína augljósu kosti en þær eru hvorki án neikvæðra afleiðinga né hafnar yfir spurningar um hvort fjármunum sé betur varið annars staðar.