Hvers vegna er tekjuskatturinn orðinn svo hár?

Hið ágenga og refsandi skattkerfi fyrri vinstri stjórnar er enn á sínum stað.

Tekjuskattur einstaklinga var bæði hækkaður og flæktur verulega eftir að vinstri stjórnin tók við völdum 2009. Til viðbótar við persónuafslátt sem hefur þau áhrif að skatthlutfallið hækkar með auknum tekjum voru sett þrjú þrep til að auka jaðaráhrifin enn frekar. Réttindi hjóna til samnýtingar voru um leið skert.

Óbreytt kerfi í 8 ár

Þetta tekjuskattskerfi frá vinstri stjórninni er óbreytt í helstu dráttum þótt liðin séu átta ár frá því hún fór frá. Hæsta skattþrepið er hærra nú en þegar vinstri stjórnin fór frá völdum en hin þrepin lægri. Persónuafsláttur hefur ekki haldið í við verðlag. Viðmiðunarmörkum fyrir þrep hefur verið breytt jafnt, þrepum fækkað og fjölgað aftur og svo hefur verðlag og launaþróun sín áhrif á dæmið.

Vegna þess hve kerfið var flækt er snúið að bera saman einstök tímabil. Er tekjuskatturinn hærri eða lægri nú en hann var til dæmis eftir skattahækkanir í kjölfar fjármálahrunsins?

Það verður eiginlega ekki gert nema með þeim einfalda en vel marktæka hætti að skoða hvað hið opinbera (ríki og sveitarfélög) tekur stóran hluta skattstofnsins til sín. Hvað greiða menn að meðaltali háan skatt af launum sínum?

Á myndinni hér að ofan má sjá þessa þróun undanfarna áratugi. Grafið er fengið úr riti fjármálaráðuneytisins um tekjuskattskerfið og nær til ársins 2017. Árin 2018 – 2020 virðast svo við skoðun gagna úr Tíund á svipuðu róli og 2017. Fyrirfram hefði kannski mátt ætla að vinstri stjórnin 2009 – 2013 hefði „vinninginn“ í þessum efnum. Hún var fræg fyrir skattpíningu.

Metin eru frá síðustu 8 árum

Frá árinu 2013 hefur hins vegar aldrei verið innheimt lægra hlutfall af tekjum einstaklinga en Jóhanna og Steingrímur gerðu að jafnaði á sínum stjórnarárum.

Hið ágenga og refsandi tekjuskattskerfi fyrri vinstri stjórnar er enn á sínum stað. Þess vegna eru síðustu ár mestu skattheimtuárin á þennan mælikvarða.

Það er ástæðan en engin afsökun.