Í athugasemdakerfum vefmiðla hímir hópur ritsóða. Sumir þeirra fela sig á bak við fölsk nöfn.
Engu að síður virðast sumir fjölmiðlar telja það sér til framdráttar að halda úti slíkum vettvangi. Þeim er það að sjálfsögðu frjálst. Þetta eru jafnvel fjölmiðlar sem skráðir eru á markað í virðulegum kauphöllum eða guma sig af samfélagslegri ábyrgð, rannsóknablaðamennsku og siðareglum ritstjórnar.
Þess verður einnig vart að fjölmiðla- og stjórnmálamenn telji það einhver tíðindi sem fram fer í þessum sorglega afkima. „Netheimar loga“ skrifa sumir blaðamenn þegar virkir í athugasemdum láta gamminn geisa. „Mikil reiði er í samfélaginu“ segja sumir stjórnmálamenn eftir að hafa lesið hroðann.
Aðalsmerki virkra í athugasemdum er að efast um heilindi fólks sem er í fréttum. Fólk hafi ætíð óhreint mjöl í pokahorninu.
Andríki fékk því MMR til að kanna traust fólks til þess sem skrifað er í þessa athugasemdadálka. Hvað njóta þeir sem setja sig á svo háan hest mikils trausts?
Skemmst er frá því að segja að aðeins 3% aðspurðra bera mikið eða frekar mikið traust til þess sem þar er ritað. Hér má finna könnunina í heild sinni.
Ætli geti verið að enginn treysti virkum í athugasemdum nema þeir sjálfir?