Vegafé streymir af auknum þunga úr landi

Hrikalegur kostnaður en enginn varanlegur ávinningur af blöndun lífeldsneytis í bensín og Diesel.

Í tíð vinstri stjórnarinnar 2009 – 2013 voru leiddar í lög kvaðir og ívilnanir sem þvinga seljendur eldsneytis til að blanda dýrum og orkusnauðum jurtaafurðum í bensín og Dieselolíu.

Vínandinn eða korn-etanólið, sem nú er blandað í bensín, er um þriðjungi orkuminna en bensín. Íblöndunin leiðir því til aukinnar eyðslu í bílvélum og fleiri ferða á bensínstöðvar og þar með aukins innflutnings eldsneytis. Milljónir lítra af eldsneyti hefur þurft að flytja inn aukalega á undanförnum árum vegna þessa.

Notkun lífeldsneytis hefur lengi verið harðlega gagnrýnd vegna áhrifa á matvælaverð og neikvæðra hliðaráhrifa eins og eyðingar regnskóga.

Þingmennirnir Sigríður Á. Andersen, Frosti Sigurjónsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Willum Þór Þórsson lögðu árið 2015 fram frumvarp um að stöðva þessa sóun. Frumvarpið náði ekki fram að ganga. Í greinargerð með frumvarpinu var því að spáð að óbreytt lög myndu leiða til mikils kostnaðar fyrir Ísland. Því miður hefur það gengið eftir.

Innflutningur á etanóli og lífdiesel hefur margfaldast á nokkrum árum. Heimild os.is.

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn um málið árið 2016 kom fram að ívilnanir ríkisins vegna innflutnings á lífeldsneyti árið 2015 hefðu verið um 1,2 milljarður króna. Síðan hefur skattaívilnunin hækkað verulega (er nú um 90 krónur á hvern lítra lífolíu) og innflutningur eldsneytis aukist.

Á síðasta ári gengu svo í gildi hertar reglur um þessi mál sem leiða munu til enn frekari íblöndunar og kostnaðar. Reikna má með að kostnaðurinn á þessu ári geti orðið vel á þriðja milljarð króna.

Þetta fé átti upphaflega að nota til vegagerðar. Hvernig er hægt að verja það að fé sé tekið úr vegagerð og notað til niðurgreiðslu á dýru og lélegu lífeldsneyti á bíla?