Vandinn og vínandinn

Einokun ríkisins er hvorki gamaldags né úrelt heldur átti hún einfaldlega aldrei rétt á sér.

Áhugamaður um önnur vín en útvaldir hafa fengið hillupláss undir í ÁTVR pantaði nýlega dýrindis en alls ekki dýr rauð- og rósavín á vef Santewines SAS. Hvítvín þorpsins voru flest uppseld á vefnum. Það mun standa til bóta í vikunni.

Pöntunarinnar var vitjað samdægurs á Eyjaslóð í Reykjavík. Við það tækifæri var myndin hér að ofan tekin af hillurekkum lagersins. Þeir litu út eins og hillur stórmarkaða undir persónulegar hreinlætisvörur eftir að fólk sem hugsar fyrst og fremst um rassgatið á sjálfu sér hefði farið þar um í upphafi heimsfaraldurs.

Hver er vandinn?

Áfengi er almenn verslunarvara víða um lönd og var það hér á landi vel fram á 20. öld. Þá var gerð mislukkuð tilraun til að banna það um nokkurra ára skeið. Þegar bannið rann út í sandinn tók einokun ríkisins við. Síðan hafa ætíð verið uppi varnaðarorð um hve hættulegt það gæti verið að aðrir en ríkisstarfsmenn fengju að afhenda landsmönnum veigarnar í lokuðum ílátum.

Vegna þessara varnaðarorða var viðskiptavinur Santewines undir það búinn að þurfa að olngnboga sig í gegnum þvögu af afvelta ungmennum (Vosne-Romanée kynslóðin) og bálreiðum húsmæðrum að sækja heimilisfeður sem farið hefðu með mjólkurpeninga fjölskyldunnar niður á Eyjaslóð.

Allt var þó með friði og spekt þegar viðskiptavin bar að garði. Líklega voru þessir hópar uppteknir við að panta vín frá Amazon, dutyfree.is eða netverslun ÁTVR þennan dag.

Íslenska ríkið rekur sjálft tvær vefverslanir með áfengi. Hér er skjáskot úr annarri þeirra sem einbeitir sér að því að svala þorsta ferðalangsins.

Enda er það nú svo að aldur hvers einasta viðskiptavinar er athugaður í vefverslun Santewines SAS því viðskipti fara fram með rafrænum skilríkjum. Í vefverslun ÁTVR, sem opin hefur verið frá því um aldamótin, eru dæmi um að ungmenni geti lagt inn pöntun fyrir áfengi og það var ekki lagað fyrr en vefverslun Santewines sýndi ríkiseinokuninni hvernig á að gera þetta.

Hóprefsing er engin lækning

Áfengi er vissulega varasamt efni ef menn hafa ekki stjórn á neyslunni. Því miður verður löngunin í sumum tilvikum sjúkleg. En jafnvel þegar áfengi var einungis afgreitt yfir rammgert búðarborð í fáeinum verslunum af alvörugefnum ríkisstarfsmönnum í þar til gerðum sloppum fóru menn sér að voða með vökvann.

Hóprefsing allra Íslendinga með einokun og höftum á verslun með vín og aðrar áfengar veigar gerir lítið fyrir þá sem eiga við slíkan vanda að etja. Þeir þurfa hnitmiðaðri aðstoð en skerðingu á atvinnufrelsi þeirra sem vilja bjóða vín til sölu og þar með takmörkun á því úrvali í verði, gæðum og þjónustu sem neytendur eru almennt vanir.

Var aldrei réttmæt

Hér verður hvorki sagt að einokunarsala ÁTVR sé gamaldags né að nú sé einhver sérstakur tími umfram aðra til að aflétta henni. Hún hefur alltaf verið óréttmæt þótt framtaksamir menn rjúfi hana loks nú með aðstoð tækninnar.