Smitdólgurinn

Lærðu menn ekkert af fárinu gegn franska parinu?

Upp úr miðjum september var „franska parið“ kjöldregið á samfélagsmiðlum fyrir að koma þriðju bylgju kórónuveirusmita af stað hér á landi.

Þó var parið hér á ferð mánuði áður en sóttvarnalæknir hleypti fárinu af stað með því að kalla ráðandi afbrigði veirunnar „Frakkaveiru“. Engin smitrakning tengdi parið við smit í þriðju bylgjunni enda leið mánuður frá því það greindist þar til sama afbrigði greindist aftur hér á landi. Mörg þúsund sýni voru tekin í millitíðinni en ekkert fannst þótt þetta afbrigði væri sagt sérlega smitandi – eins og öll hin.

Þessi galdrabrenna á franska parinu hentaði til heimabrúks því mánuði áður höfðu yfirvöld heitið landsmönnum „eðlilegu lífi innanlands“ eftir að upp var tekin töfralausnin tvöföld skimun með sóttkví á milli á landamærunum. Þetta reyndist falskt öryggi því mánuði síðar var þriðja bylgjan komin af stað og í lok október var gripið til hörðustu aðgerða hér innanlands.

Þá var gott að hafa einhvern til að skella skuldinni á.

Annað hljóð

Þegar erlendir fjölmiðlar fóru að ganga á menn hér heima kom hins vegar annað hljóð í strokkinn.  Nötrandi af ótta við málsóknir viðurkenndu menn að hafa haft rangt við. Utanríkisráðuneytið bar það til baka við franska fjölmiðla að franska parið hefði brotið sóttvarnareglur enda var því ekki gerð nein refsing. Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar lýsti því einnig yfir að ekkert lægi fyrir um að parið hefði dreift veirunni. Það hefði verið óvarlegt að halda því fram.

Í lok nóvember birtist svo þetta svar á Vísi við fyrirspurn til almannavarna um hvort rekja mætti þriðju bylgjuna til franska parsins.

Í svari almannavarna segir að ekki sé hægt að fullyrða að veirustofninn hafi komið til landsins með þessum tilteknu ferðamönnum.

Endurtekið efni?

Er sú úthrópun á „smitdólgum“ sem fram fer þessa dagana á jafn veikum grunni og fárið gegn franska parinu?