Ekki pantað nægt bóluefni fyrir viðkvæmasta hópinn

Samflot með ESB takmarkaði möguleika Íslendinga til bóluefnakaupa.

Sama fólkið og lét undan þeim kröfum ESB að íslenskur almenningur gengist í ábyrgð fyrir Icesave virðist nú hafa skuldbundið Ísland gagnvart ESB til að panta ekki nægt bóluefni frá öllum helstu framleiðendum fyrir viðkvæmustu hópa þjóðfélagsins.

Í helstu forgangshópum bólusetningu gegn kórónuveirunni eru um 90 þúsund Íslendingar. Í þessum hópi eru til að mynda allir sem eru orðnir 60 ára og eldri, langveikir og framlínumenn.

Enginn undir sextugu látist

Enginn Íslendingur undir 60 ára hefur látist hér á landi með kórónuveirusmit. Um 4.500 Íslendingar undir 60 ára aldri hafa hins vegar greinst með smit og þá má gera ráð fyrir að yfir 7.000 á þessum aldri hafi smitast. Engin andlát. Enda gefur CDC upp dánartíðinina (IFR) 0,003% fyrir 0 – 19 ára og 0,02% fyrir 20 – 49 ára. Að setja þessa hópa í spennitreyju vegna kórónuveirunnar á sér þá einu mögulegu réttlætingu að þeir geti borið smit í viðkvæmasta hópinn en dánartíðini samkvæmt mati CDC fyrir 70 ára og eldri er um 5%.

Til að bólusetja 90 þúsund Íslendinga í viðkvæmasta hópnum  þarf 180 þúsund skammta af bóluefnum. Var þá ekki alveg augljóst að panta að algjöru lágmarki 180 þúsund skammta frá öllum helstu bóluefnaframleiðendum? Engin leið var að vita hver þeirra yrði fyrstur til að koma bóluefni í umferð eða hve virk þau yrðu og hverjar mögulegar langtíma aukaverkanir væru.

Rýrir og síðbúnir samningar

Samkvæmt upplýsingasíðu stjórnvalda var fyrsti samningurinn um bóluefni gerður við AstraZeneca 15. október 2020 um kaup á 228 þúsund skömmtum sem duga fyrir 114 þúsund einstaklinga. Það var ekki seinna vænna og fjöldi skammtanna sem samið var um var yfir þessum 90 þúsund bráðnauðsynlegu. Mjög gott. En vandinn er að bóluefnið hlaut ekki viðurkenningu evrópska lyfjaeftirlitsins (EMA) fyrr en í lok janúar og takmarkanir hafa verið á notkun þess fyrir einmitt þann hóp sem þarf mest á bólusetningu að halda.

Næsti samningur Íslands um bóluefni var því miður ekki gerður fyrr en tveimur mánuðum síðar! Sá samningur var við Pfizer/BioNtech 9. desember. Ekki kemur fram um hve marga skammta var samið 9. desember en 30. desember var samið aftur og þá var heildarfjöldi skammta kominn í 250 þúsund sem duga fyrir 125 þúsund manns og þar með viðkvæmustu hópana hér á landi. Hvers vegna liggja menn á upplýsingum um upphaflega skammtafjöldann? Er það vegna þess að hann dugir ekki heldur fyrir viðkvæmasta hópinn?

Hinn 22. desember var samið við Janssen um skammta fyrir 235 þúsund einstaklinga. Von er á bóluefninu frá Janssen í vor.

Á næstsíðasta degi ársins 2020 var svo samið við Moderna um 128 þúsund skammta sem duga aðeins fyrir 64 þúsund manns. EMA hóf forskoðun á bóluefninu 16. nóvember og veitti leyfi um áramótin. Hvers vegna var ekki búið að semja við Moderna miklu fyrr og um magn sem dugir að minnsta kosti viðkvæmasta hópnum?

Samningum er nýlokið við CuraVac og unnið að samningu við Sanofi en óvíst er hvenær bóluefni þeirra verða skráð og afhent.

Varla spurning um fé

Aðeins samningurinn við AstraZeneca virðist bæði hafa verið gerður tímanlega og samið um nægt magn. Grátlegast er hve snautlegur og síðbúinn samningurinn við Moderna er. Óljóst er hvort upphaflegi samningurinn við Pfizer/BioNtech gerði ráð fyrir bóluefnum handa viðkvæmustu 90 þúsundunum.

Samningar Íslands um bóluefni eru þannig heldur rýrir og seint til komnir. Ekki var gætt að því að panta nægt bóluefni fyrir viðkvæmustu hópana frá öllum framleiðendum.

Á þessu þurfa að fást skýringar. Því verður vart trúað að menn beri kostnað fyrir sig því kostnaðurinn við bóluefninn er hjóm eitt í samanburði við tjónið sem lokun landsins og atvinnuleysi tugþúsunda veldur. Í Morgunblaðinu á laugardag kom fram að hreinar skuldir ríkissjóðs hafi hækkað um 240 milljarða undanförnum 12 mánuðum. Blaðið bendir á að það sé um hálf milljón á hverri mínútu í auknar skuldir. Hlutur hverrar fjögurra manna fjölskyldu í þessum skuldum er 2,6 milljónir króna.

Vonast eftir að Kári bjargi mönnum aftur

Um tíma voru bundnar við að Kári Stefánsson forstjóri DeCode skærist aftur í leikinn og tryggði Íslendingum bóluefni frá Pfizer á grundvelli rannsóknar. Hann bjargaði mönnum um skimanir þegar í ljós kom að ríkið hafði ekki gert auknar ráðstafanir til að geta greint smit þegar þau fóru að breiðast út á fyrstu mánuðum síðasta árs. Einn angi af því máli er að „tækið“ til greininga var ekki pantað fyrr en seint og um síðir og kom svo til landsins 13. desember 2020.

Ekki varð af þessum rannsóknarsamningum við Pfizer og skýringar á því eru helst nefndar að hér séu svo fá smit nú um stundir þótt staðan hafi verið þannig mánuðum saman. Vonandi átti þvergirðingur sóttvarnayfirvalda við að draga úr hömlum þegar bólusetning væri hafin ekki þátt í því að viðræðurnar fóru út um þúfur.