Lokað á leiðinni niður

Er gripið til hörðustu sóttvarnaaðgerða þegar kúrfan hefur tekið stefnu í rétta átt?

Mælt var fyrir um hörðustu almennu lokanir Íslandssögunnar í reglugerð ráðherra 30. október. Svona frelsisskerðingar gagnvart heilbrigðu fólki í nafni sóttvarna lærðu menn af kínverskum stjórnvöldum í byrjun ársins. Fram að því hafði þessi aðferð ekki hvarflað að nokkrum manni.

Vísindamenn frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala fylgjast með útbreiðslu veirunnar og birta myndir af þróun mála á covid.hi.is. Ekki er annað að sjá á myndunum hér að neðan en bæði fjöldi smita og smitstuðull hafi verið á niðurleið þegar gripið var til hörðustu aðgerðanna 30. október. Það tekur smit 1 – 2 vikur að skila sér í greiningu. Kúrfan hélt áfram á leið niður næstu 1 – 2 vikurnar sem liðu (31. október til 13. nóvember) áður en mögulegra áhrifa af aðgerðunum fór að gæta.

Mynd af covid.hi.is. Smitstuðull (efri ferill) og smitkúrfa voru á niðurleið þegar gripið var til víðtækustu lokana 30. október. Gula litunin er Andríkis og sýnir mögulegt áhrifasvæði lokana.

Sú spurning hlýtur að vakna hvort ástæða var á þessum tímapunkti til að svipta fjölda fólks lífsviðurværinu, þvinga ung börn til að nota grímur og banna þeim að stunda íþróttir og hafa skólagöngu af eldri börnum.

Ef til vill má einnig setja spurningamerki við 100 manna samkomubann 31. júlí. Þá var smitkúrfan á leið niður þegar gripið var til aðgerða. Hins vegar var þetta rétt fyrir verslunarmannahelgi og kann því augljóslega að hafa komið í veg fyrir hópsmit þótt sú helgi markist mjög af útihátíðum.

Landamæraskimunin

Hinn 19. ágúst var gripið til tvöfaldrar skimunar með sóttkví á milli á landamærunum. Ferðamönnum fækkaði hratt í kjölfarið. Rúmum tveimur vikum síðar eða 5. september sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Enn sem stendur þá teljum við í öllu falli að þessi tvöfalda skimun á landamærunum sé að skila alveg ótvíræðum árangri þegar kemur að því að treysta varnir okkar gegn veirunni,

Katrín hafði vart sleppt orðinu þegar svonefnd þriðja bylgja smita skall á þjóðinni. Þrátt fyrir að vera með hörðustu landamæraaðgerðir í Evrópu. Þótt yfirvöld hafi haldið öðru fram liggur ekkert fyrir um að veiruafbrigðið (bláa) sem hefur verið uppistaðan í þriðju bylgjunni hafi blossað upp frá smiti sem kom inn í landið fyrir hinar hertu aðgerðir. Þetta afbrigði greindist um 10. ágúst en svo ekki aftur fyrr en um miðjan september. Afbrigðið er sagt bráðsmitandi og langsótt að það hafi legið í dvala í mánuð hér innanlands án þess að greinast. Enda eru nú komin upp fleiri afbrigði sem sloppið hafa í gegnum hina margrómuðu tvöföldu skimun með sóttkví á milli. Sérfræðingar WHO hafa sagt að þessi eltingarleikur við veiruna á landamærum sé dæmdur til að mistakast.

Seinni skimun eftir sóttkví á landamærunum greip um 0,08% farþega með smit eða um 60 smit á tímabilinu 19. ágúst til 4. nóvember. Á sama tímabili greindust nær 3.000 smit innanlands. Seinni skimunar smitin eru því sáralítið brot af smitunum sem voru greind innanlands.

Fleiri hafa smitast og því miður fleiri einnig látist í þessari bylgju en í fyrstu bylgjunni í vor þegar engin skimun var á landamærunum.

Lokanirnar síðasta vetur og vor

En hvernig var það í vetur og vor, hittu almennar lokanirnar ekki í mark þá? Það er ekki augljóst. Hörðustu aðgerðirnar voru 24. mars. Þá var smitstuðullinn þegar á niðurleið ef marka má myndina hér að neðan frá vísindamönnunum á covid.hi.is. Smitkúrfan hafði beygt af leið og var komin á flatlendi. Þótt það heyrist sjaldan í seinni tíð var upphaflega markmiðið einmitt að fletja kúrfuna.

Vissulega sést þetta tilvik frá 24. mars mun betur eftir á en í miðjum klíðum. Það er engu að síður áminning til stjórnvalda um að sóttvarnaaðgerðir geta valdið miklum skaða án þess að ávinningur sé augljós.