Er lækningin kannski verri en meinið, spyrja menn sem dirfast að horfa á fleiri þætti í lífi mannsins en kúrfur um smit, veikindi, innlagnir og dauðsföll tengd kórónuveirunni. Eru innilokun heilbrigðs fólks og annað afnám mannréttinda, hindranir á menntavegi unga fólksins, eyðilegging ótal fyrirtækja, svipting lífsviðurværis milljóna manna og hrikaleg skuldasöfnun ríkja réttlætanlegar aðgerðir?
Þetta er ekki sérlega vel orðuð spurning því þessar aðgerðir eru alls engin lækning. Er ólækningin verri en meinið, væri nær lagi að spyrja.
Þessar aðgerðir voru fyrst notaðar síðasta vetur og fram á sumar. Kannski voru þær að einhverju leyti skiljanlegar á meðan menn áttuðu sig á stöðunni. Enginn veit þó hvort eða þá hve mörgum mannslífum þær björguðu. Ósiðlegt þótti að benda á að aðgerðirnar myndu hafa skelfilegar hliðarverkanir í för með sér. Myndu þær kosta fleiri lífið en þær björguðu þegar upp væri staðið? Slíkar spurningar voru afgreiddar með því að spyrjandi væri illa innrættur og tilbúinn til að fórna gamla fólkinu fyrir krónur og aura.
Það var hins vegar ekkert augljóst samhengi á milli aðgerðanna og andláts fólks með veiruna. Hámark í fjölda þeirra sem létust var svo skömmu eftir að gripið var til þessara aðgerða síðasta vetur að persónulegar sóttvarnir hafa líklega verið öflugasti hemillinn á útbreiðsluna. Til dæmis náðu dauðsföllin í Bretlandi hámarki 8. apríl sem er 16 dögum eftir að gripið var til „lockdown“ en tíminn frá smiti til dauða er að meðaltali talinn vera um 28 dagar.
Í stað einnar ríkislausnar fyrir alla ákváðu sænsk stjórnvöld að treysta að miklu leyti á sóttvarnir hvers og eins. Hver og einn myndi laga sig að ástandinu að bestu getu. Þeim var spáð miklum hrakförum. Þær spár hafa ekki ræst. Það er lyginni líkast að Svíar hafi haldið þessum kúrs undir kastljósi gólandi heimspressunnar og geðshræringar á samfélagsmiðlum.
Landamæri Íslands
Með skimunum ferðamanna á landamærunum var vonast til að kóróunuveiran myndi gufa upp hér innanlands. Við tæki „nokkurn veginn eðlilegt líf innanlands.“
Fyrst stungu menn einu lífsýni úr hverjum ferðalangi frá 15. júní. Svo var skyndilega heimtað að taka tvö sýni með fimm daga sóttkví á milli. Það stöðvaði komu ferðamanna til landsins frá 19. ágúst.
Hvorki ríkisstjórninni né fjölmiðlum hugkvæmdist að spyrja hvers vegna einföld skimun dygði ekki. Svarið liggur svo sem í augum uppi. Skimanirnar gefa mikið af fölskum neikvæðum niðurstöðum. Hve mikið falskt vita menn ekki nákvæmlega en þar er þó um svo veruleg hlutföll að ræða að skimunarkerfið verður alltaf lekt.
Engu að síður var landsmönnum selt þetta tvöfalda kerfi með þeim „rökum“ að aðeins þyrfti eitt smit að sleppa í gegn til að allt færi í bál og brand innanlands.
Á vef læknavísindaritsins The Lancet 8. október birtist álit frá 12 sérfræðingum sem sitja í „WHO Strategic and Technical Advisory Group for Infectious Hazards.“ Þar er vikið að skimun ferðamanna á landamærum:
Það er engin ákjósanleg leið til koma í veg fyrir að SARS-CoV-2 berist yfir landamæri. Einu gildir hversu vasklega er gengið fram við skimanir og sóttkví. Þetta skýrist af því hve mislangur einkennalaus meðgöngutími (2 – 14 dagar) veirunnar er og hve misjafnleg hún leggst á fólk (ógreinanleg og væg veikindi í mörgum tilfellum). Ferðalangar dvelja svo á heimilum með fólki sem er ekki í sóttkví. Margir dagar geta auk þess liðið frá smiti þar til PCR próf nema það.
Tveimur og hálfum mánuði eftir að hindranirnar voru settar upp á landamærunum Íslands var gripið til hörðustu lokana innanlands til þessa.
Hvers vegna er þá haldið áfram að loka?
Jonathan Sumption lávarður og fyrrverandi dómari við hæstarétt Bretlands velti þessu fyrir sér í grein í Daily Mail 18. október. Hvers vegna er haldið áfram með þessar lokanir sem í besta falli fresta úrbreiðslu veirunnar þar til opnað er aftur? Hvers vegna einbeita menn sér ekki að því að verja viðkvæma hópa og leyfa þeim sem er nánast engin hætta búin af veirunni að halda áfram með lífið?
Það er ekki við almenning að sakast heldur ráðherrana sem eru búnir að mála sig út í horn. Þeir ólu á ótta til að réttlæta aðgerðirnar og til að auka líkur á að fólk hlýddi. Þeir lofuðu upp í ermina á sér og þegar hið óhjákvæmilega gerðist kenndu þeir almenningi um að hafa ekki hlýtt. Ástæðan fyrir því að ráðherrarnir hafa ekki svarað spurningum sem þessar aðgerðir hafa vakið upp er að ætlun þeirra er ekki að kæfa veiruna, sem þeir átta sig á að er óframkvæmanlegt. Ástæðan er að þeir vilja koma sjálfum sér undan ábyrgð.
Þeir virðast álíta að þeir verði gagnrýndir fyrir dauðsföll af völdum Covid-19 en þeir muni hins vegar komast upp með allar hliðarverkanirnar af óvægnum sóttvarnaaðgerðunum: dauðsföll vegna krabbameins, einsemd og andleg áföll, fátæktina og eyðileggingu atvinnulífsins, gjaldþrot fólks, fyrirtækja og hins opinbera. Sannleikurinn er fyrsta fórnarlamb þessara aðgerða en hann er ekki þungur á metunum hjá þessari ríkisstjórn.
Ríkisstjórnin hefur gert nauðung að sinni stefnu. Hún þorir ekki að víkja frá stefnunni af ótta við að þá komi í ljós að hún var á rangri braut.
Í þekktu ævintýri var svona sjálfhelda dregin saman í eina setningu. „Nu må jeg holde processionen ud.“