Undarleg staða hefur verið á landamærum Íslands frá því um miðjan ágúst. Venjulegum ferðamönnum, þessum sem ætla að fara einn hring um landið á bílaleigubíl, er úthýst með skilyrðum um tvöfalda skimun og sóttkví á milli.
Skimanir eru mannanna verk
Eins og látið hefur verið með skimanir kemur það sjálfsagt mörgum í opna skjöldu að áreiðanleiki skimana sé á reiki. Það segir sína sögu að menn gripu til tvöfaldrar skimunar á landamærunum í þeim tilgangi auka líkurnar á því að finna smit. Sjálfsagt hafa einhverjir trúað því að með þessu tvöfalda kerfi væri búið að útiloka að ný smit bærust til landsins en því fer fjarri.
Menn vita einfaldlega ekki hve margir jákvæðir (falskt neikvætt próf) fara kotrosknir að knúsa ömmu. Ekki er heldur vitað hve margir neikvæðir (falskt jákvætt) eru settir í einangrun að ástæðulausu ásamt því að óþörf smitrakning á sér stað. Þessi óvissa er meðal annars ástæðan fyrir því að sumir hafa hikað við að skima einkennalaust fólk í stórum stíl. Hinar nauðsynlegu og margrómuðu skimanir eru hvorki fullkomnar né lausar við neikvæðar afleiðingar.
Að koma í veg fyrir rask
Hömlunum á landamærunum sem tóku gildi 19. ágúst fylgdi að með þeim mætti tryggja nokkurn veginn eðlilegt líf innanlands.
Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar 14. ágúst sagði um aðgerðirnar:
Með þessu er talið að dregið verði úr líkum á því að frekari raskanir verði á daglegu lífi landsmanna vegna sóttvarnaraðgerða innanlands.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifaði í Morgunblaðið 24. ágúst þar sem hún vitnaði í „hagræna greiningu“ á áhrifum aðgerða á landamærunum.
Margt áhugavert kemur þar fram, meðal annars að hagræn rök hnigi að því að herða beri aðgerðir á landamærum til þess að tryggja að innanlandshagkerfið verði ekki fyrir of miklu raski af hörðum sóttvarnaráðstöfunum.
Það kom þó skýrt fram hjá forsætisráðherra á þeim tíma að óraunhæft væri að gera ráð fyrir veirufríu landi.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar skrifaði svo í Morgunblaðið 4. september um þessar lokanir.
Ástandið á Íslandi er gott og fer batnandi þannig að við getum farið að slaka á sóttvarnarkröfum innan lands svo lífið færist í nokkuð eðlilegt horf. Ef við hins vegar myndum slaka á kröfum við landamæri er ljóst að smitum myndi fjölga, gögnin sýna það og við yrðum að herða tökin innan lands þannig að skólar gætu ekki starfað eðlilega, menningarlíf legðist að mestu af og atvinnuvegir aðrir en ferðaþjónusta myndu gjalda. Vegna þess að lítið er um smit á Íslandi viljum við koma í veg fyrir að þau berist inn frá öðrum löndum.
Þegar Danir og Norðmenn lokuðu landamærum sínum í mars kallaði Kári það hins vegar óðagot.
Til að undirstrika að búið væri að loka veiruna úti var svo nokkrum samkomutakmörkunum innanlands aflétt 7. september.
Eðlilegt líf?
Nú sjö vikum eftir lokun landamæranna er „eðlilega lífið innanlands“ svona:
Vísindamenn sem spáð hafa fyrir um þróun faraldursins segja nú að „rauð flögg séu alls staðar.“ Sóttvarnalæknir talar um veldisvöxt smita.
Nokkur þúsund manns eru í sóttkví. Langflestir þeirra eru ósmitaðir ef marka má reynsluna. Þar af um 1.600 skólabörn. Farið er í greiðslukortaupplýsingar fólks til að rekja ferðir þess um bæinn. Mörgum fyrirtækjum og stofnunum hefur ýmist verið lokað eða dregið mjög úr starfsemi með valdboði.
Þá er ótalið það tjón sem orðið er í ferðaþjónustunni og tengdum greinum sem blasti við að yrði þegar landinu var smellt í lás í ágúst.
Atvinnuleysi eykst dag frá degi.
Gengið er á atvinnu-, funda- og ferðafrelsi fólks í öllum þessum aðgerðum að ógleymdri friðhelgi einkalífs.
Falskt öryggi
Óneitanlega vaknar sú spurning hvort þessi lokun á landamærunum í ágúst og fyrirheitin um „nokkurn veginn eðlilegt líf innanlands“ hafi skapað falskt öryggi meðal landsmanna. Það væri ekki í fyrsta sinn sem gagnslausar reglur og eftirlit ríkisins ræna menn árvekninni.