Umhverfisskattar auka mengun

Í gær sagði Morgunblaðið frá niðurstöðum meistararitgerðar við læknadeild Háskóla Íslands á áhrifum loftmengunar á hjartað.

Niðurstöður meistararitgerðar frá læknadeild Háskóla Íslands gefa til kynna að skammtímahækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) tengist bráðakomum á spítala vegna hjartasjúkdóma, sérstaklega vegna gáttatifs, gáttaflökts og annarra hjartsláttartruflana.

En hvaðan koma köfnunarefnsidíoxíð?

Uppsprettan var þekkt

Með hækkunum á eldsneytis- og bílasköttum á árunum eftir hrun (2009 – 2011) var fólki beint úr bensínbílum yfir í Dieselbíla. Flestir landsmenn höfðu fram að því kosið bensínbíl sem fjölskyldubíl og Dieselbílar frekar notaðir til flutninga og þess háttar. Þessar skattahækkanir á bensínbílinn voru í nafni baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.

Dieselbílar geta haft nokkru lægri útblástur gróðurhúsalofttegunda í för með sér en bensínbílar af sömu stærð, sérstaklega þegar um er að ræða stóra bíla. Hins vegar hafa Dieselbílar gefið frá sér margfalt meira sót og köfnunarefnisoxíð NOx sem er ekki gott að anda að sér. Þessi mikla sót og NOx mengun frá Dieselbílum var þekkt þegar ákveðið var að ýta fólki úr bensínbílum yfir í Dieselbíla.

Í kjölfar þessarar neyslustýringar fjölgaði Dieselbílum mjög hér á landi á kostnað bensínbíla. Vegna „grænu“ skattana sem lagðir voru á bensínbílana umfram Dieselbílana voru bensínbílarnir ekki lengur á samkeppnishæfu verði þótt bensínbílar séu ódýrari í framleiðslu.

Hættulega góðar hugmyndir

Annað dæmi úr sama ranni er skyldan sem vinstri stjórnin lagði á um íblöndun lífeldsneytis í hefðbundið eldsneyti. Skyldan var einnig sögð í þágu loftslagsmála. Hún kostar ríkissjóð og þar með almenning milljarða en klipið er af fé sem upphaflega var ætlað í vegagerð. Nú hafa þingmenn vinstri flokkanna viðurkennt með sérstakri þingsályktunartillögu að þessi íblöndun lífeldsneytis sé hræðileg fyrir umhverfið og ekki síður fyrir fólkið sem starfar á plantekrunum. Er það ófögur lesning.

Reiknað hefur verið út að lífeldsneyti frá jurtaolíu, sem er um 70% af lífeldsneytismarkaði í Evrópu, losi 80% meira af gróðurhúsalofttegundum en jarðefnaeldsneytið sem verið er að skipta út.

Alkóhól sem notuð eru til að uppfylla íblöndunarskylduna í bensín hækka gufuþrýsting bensíns sem eykur líkur á að bensíngufur sleppi út við áfyllingu á bíla og tæki. Til að bregðast við þessu voru auðvitað sett lög um gufugleypa á bensínstöðvum til að bregðast við þessari mengunarhættu sem lögin um íblöndunina höfðu í för með sér. Um þetta sagði í lagafrumvarpinu:

Gerð er krafa um gufugleypibúnað á bensínstöðvum sem á að koma í veg fyrir að aukin losun á rokgjörnum lífrænum efnum frá íblönduðu eldsneyti hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks og umhverfi.

Þriðja dæmið sem mætti nefna af þessu sviði er hugmyndin um að draga úr mengun frá bílum með því að tefja fyrir þeim. Þingmenn VG lögðu nýverið fram tillögu á þingi um að sveitarfélögin fengju heimild til að – jú rétt til getið – skattleggja bíleigendur fyrir að menga á meðan þeir bíða í bílnum eftir að komast leiðar sinnar framhjá nýjustu þrengingunum.

Krafan í umhverfismálum er oft „aðgerðir strax“ og stjórnmálamenn sem skreyta sig með grænum slagorðum vilja „sýna metnað í málaflokknum.“ Eins og þessi dæmi sýna geta þó sumar hugmyndir um aðgerðir verið hættulega góðar.