Eru nýju útlendingalögin afsökun í hælismálum?

Umsóknum um alþjóðlega vernd fækkaði eftir að lögin tóku gildi 2017.

Ýmsir virðast líta til laga um útlendinga 80/2016 sem tóku gildi 1. janúar 2017 sem upphafs að ógæfu Íslands í málefnum hælisleitenda. Lagafrumvarpið var samið af þverpólitískri nefnd undir formennsku Óttars Proppé alþingismanns. Hann er oft nefndur í þessu samhengi.

Lögin eru vissulega langt frá því að vera fullkomin. En þegar litið er á áratuginn 2011-2020 var árið 2016 metár í fjölda umsókna þegar 1.095 óskuðu eftir hæli. Þ.e. metárið var áður en lögin tóku gildi. Umsóknum fækkaði aftur á móti eftir að lögin tóku gildi þótt vissulega væru gerðar breytingar á lögunum sjálfum og reglugerðum þeim til fyllingar á árunum 2017 og 2018.

Albanía og Makedónía

Ágætt dæmi um að mögulegt virðist að vinna innan laganna er hvernig tókst að vinda ofan af vandanum sem umsóknir frá Albaníu og Makedóníu höfðu skapað á árunum 2015-2016. Hvernig var mögulegt að fást við þetta áhlaup á landið eftir að lögin tóku gildi ef þau binda svo mjög hendur framkvæmdavaldsins? Hvers vegna snarfækkaði umsóknum frá Albaníu og Makedóníu eftir að lögin tóku gildi?

Eins og menn þekkja fóru hælismál almennt svo algerlega úr böndunum frá árinu 2021 þótt á þeim tíma væru Íslendingar sjálfir ofsóttir af stjórnvöldum á leið heim til sín með alls kyns kröfum um bólusetningu, strikamerkingar, lífsýnatöku og sóttkví. Árið 2022 var metið frá 2016 ferfaldað með 4.520 umsóknum um hæli.

Venezúela

Ein af helstu ástæðum þess að menn misstu tökin á þessum málum í árslok 2021 var hrina umsókna frá Venezúela. Augljós merki rétt fyrir faraldurinn um að eitthvað óvenjulegt væri í uppsiglingu frá Venezúela voru ekki tekin alvarlega. Ekki heldur þegar leið að lokum faraldurs haustið 2021. Núverandi ríkisstjórn lét það viðgangast árum saman að „ferðaskrifstofur“ í Suður-Ameríku auglýstu  veiðiferðir á íslenska skattgreiðendur með fríu fæði, húsnæði og annarri þjónustu.

Núverandi ríkisstjórn, með sinn drjúga þingmeirihluta, ber ábyrgð á því að bregðast ekki við ástandinu árum saman.

Ekki Óttarr Proppé sem sat í nefnd árið 2015.