Undir því yfirskini að „verja líf og heilsu“ gegn veirupest skertu íslensk stjórnvöld ýmis borgaraleg réttindi frá mars 2020 til febrúar 2022. Atvinnu-, funda- og ferðafrelsi var skert verulega. Börnum var jafnvel bannað að stunda íþróttir og skólaganga þeirra var skert. Hömlulausar fjöldaskimanir hófust á jafnt veikum sem einkennalausum. Á veikum grunni þeirra var fólk lokað inni. Stór hluti hinna innilokuðu var ekki smitaður eða löngu hættur að smita. Landinu var nánast skellt í lás með skimana-, sóttkvíar- og bólusetningarkröfum á landamærunum.
Flest ríki Evrópu fóru svipaða leið. Einn ótrúlegasti þáttur þessa máls er að leiðsögnina um afnám borgaralegra réttinda í nafni sóttvarna sóttu menn til alræðisríkisins þar sem pestin kom upp.
Eitt ríki í Evrópu skar sig þó úr. Sænsk sóttvarnayfirvöld ákváðu að treysta borgurunum í stað þess að beita boðum og bönnum. Sænsku sóttvarnalæknarnir sögðu að lokanir og höft væru í besta falli skammgóður vermir. Fyrir þetta uppskáru Svíar almenna fordæmingu í fjölmiðlum.
Íslenski sóttvarnalæknirinn sagði að hann teldi að Íslendingar myndu ekki sætta sig við dauðsföll á borð við þau sem væru í Svíþjóð.
Nú jæja, hvers vegna heyrist þá hvorki hósti né stuna nú þegar umframdauðsföll á Íslandi eru orðin svipuð frá upphafi faraldurs og í Svíþjóð?
Og hvernig má það vera að nágrannar Svía í Finnlandi séu sömuleiðis með álíka umframdauðsföll og Svíar þrátt fyrir að Finnar hafi farið kínversku leiðina?
Að því sögðu að samanburður milli landa af þessu tagi verður aldrei nákvæmur virðist enginn augljós ávinningur af lokunum og öðrum frelsissviptingum þegar Svíþjóð er borin saman við önnur lönd Norður-Evrópu.