Sjálfstæðisflokkurinn er níræður í dag. Þótt stjórnmálaflokkar séu almennt tæki en ekki tilgangur má kannski segja í ljósi sögunnar að það hafi verið nokkur tilgangur í því að sameina þingflokka frjálslyndra og íhaldsmanna árið 1929. Með því var nefnilega fléttuð snotur stjórnmálastefna þar sem frelsið er í öndvegi með hæfilegri íhaldssemi gagnvart þeim þáttum sem vel hafa reynst í þjóðfélaginu.
Ágætt dæmi um þetta er íhaldssemi Sjálfstæðisflokksins gagnvart breytingum á hinni frjálslyndu stjórnarskrá lýðveldisins, skrá sem tryggir mönnum helstu frelsisréttindi og er mikilvæg hrindrun gegn íhlutun umboðslausra manna utan frá um málefni landsins.
Með frelsi er því bæði átt við frelsi einstaklinganna til að finna hæfileikum sínum farveg, reyna, prófa, þróa, tapa og hagnast. En einnig frelsi þjóðarinnar til að láta lýðræðið hafa sinn gang án erlendrar íhlutunar.
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins benti enda á það í ræðu sinni í afmælishófi flokksins fyrr í dag að flokkurinn hefði ekki þurft að breyta grundvallarstefnumálum sínum frá stofnun. Sjálfstæðismenn geta því óhikað litið stoltir um öxl á þessum tímamótum. Stefnan hefur staðist tímans tönn og forystumenn flokksins verið velviljaðir sómamenn.
Sjálfstæðisflokkurinn er tíðum í ríkisstjórn og ætíð í samstarfi við flokka sér til vinstri. Þetta er auðvitað ekki einfalt fyrir flokk sem vill starfa að hugsjónum sínum um aukið svigrúm einstaklinganna. Kerfið sjálft, ríkisbáknið og sveitarfélögin, vill þenja sig út og embættismenn toga í ráðherra og þingmenn um að „sýna metnað“ í sínum ráðuneytum og málaflokkum. Um leið hafa samstarfsflokkarnir tilhneigingar í sömu átt og kerfið. Að ógleymdum þrýstihópunum sem sækja án afláts í ríkissjóð. Hvarvetna er kallað á aukin úrræði, hrópað fjársvelti og spurt hvort vanrækja eigi hina og þessa. Með öðrum orðum krafist meira af skattgreiðendum. Kröfurnar dynja á kjörnum fulltrúum í flestum fréttatímum.
Þess vegna er það svo gríðarlega mikilvægt að hinn almenni maður á hægrivængnum taki þátt í starfi flokksins og annarri hugmyndavinnu og haldi kjörnum fulltrúum hans við efnið. Já flokkurinn mun gera eitt og annað sem til að mynda frjálshyggjumönnum líkar ekki. Það er nánast sjálfsagt, ekki síst í ljósi þess sem segir hér að ofan. En það á ekki að koma frjálshyggjumönnum á óvart, því grunnstef frjálshyggjunnar er jú efi um ágæti þess að fela stjórnmálamönnum verkefni og völd.
Engum sem tekur þátt í starfi svo stórs stjórnmálaflokks sem Sjálfstæðisflokksins mun líka allt sem þar fer fram, hvort sem það er stefnumótun í stöku máli á landsfundi, úrslit í einhverju prófkjörinu eða aðgerðir flokksins í ríkisstjórn. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt það í 90 ár að hann er prýðilegur vettvangur fyrir stjórnmálaþátttöku mikils fjölda fólks.
Til hamingju með daginn sjálfstæðismenn.