Fé sem ætlað var í vegagerð streymir áfram úr landi

Milljarðar sem áttu að fara í vegagerð eru notaðir til að niðurgreiða lífeldsneyti

Í tíð vinstri stjórnarinnar 2013 voru leiddar í lög kvaðir og ívilnanir sem þvinga seljendur eldsneytis til að blanda dýrum og orkusnauðum jurtaafurðum í bensín og Dieselolíu. Ráðherra Framsóknarflokksins herti á þessum kröfum með reglugerð um eldsneyti haustið 2016. Hvort tveggja var sagt innleiðing á ESB reglum um orkumál sem augljóst mátti þó vera að ættu ekki við hér í landi sem þegar er með 85% endurnýjanlega orku.

Vínandinn eða korn-etanólið, sem nú er blandað í bensín, er um þriðjungi orkuminna en bensín. Íblöndunin leiðir því til aukinnar eyðslu í bílvélum og fleiri ferða á bensínstöðvar og þar með aukins innflutnings eldsneytis. Milljónir lítra af eldsneyti hefur þurft að flytja inn aukalega á undanförnum árum vegna þessa. Lífolían sem blanda þarf í Dieselolíu er svo jafnan miklu dýrari en hefðbundin Dieselolía.

Notkun lífeldsneytis hefur lengi verið harðlega gagnrýnd vegna áhrifa á matvælaverð og neikvæðra hliðaráhrifa eins og eyðingar regnskóga.

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn um skattaívilnun þá sem íslenska ríkið veitir vegna innflutnings lífeldsneytis kom fram að þær hefðu numið 2,4 milljörðum króna árið 2020. Án lagaskyldu til íblöndunar hefðu þessir 2,4 milljarðar runnið í ríkissjóð en í stað þess runnu þeir úr landi til kaupa á dýru og/eða orkusnauðu lífeldsneyti. Þetta gerist á hverju ári.

Grátlegt að skattar sem upphaflega voru ætlaðir til vegagerðar hér séu notaðir til að niðurgreiða innflutning á dýrara eldsneyti.