Fjármálaráðherra hefur nú kynnt að það sé eðlileg greiðsla fyrir afnot rafbíla af vegakerfinu að greiddar séu 6 krónur fyrir hvern kílómetra. Gjaldið verður óháð þyngd rafbílsins. Ætlunin er að innheimta gjaldið af rafbílum frá næstu áramótum.
Ekki verður hnikað við skattlagningu á bensín- og dísilbíla að svo stöddu.
Við getum þá borið saman gjaldtöku fyrir notkun af tveimur vinsælum bílum, rafbíl og bensínbíl, frá næstu áramótum.
Léttur ber hærra km-gjald
Vinsæll rafbíll vegur um 1,8 tonn. Hann mun frá áramótum greiða 6 krónur fyrir kílómetrann skv. áætlun fjármálaráðherra.
Vinsæll bensínbíll vegur um 1 tonn. Miðað er við að skattur (vörugjöld og vsk.) af bensínlítranum sé um 150 krónur og bíllinn eyði um 6 lítrum á hundraðið. Þá er kílómetragjald hans um 9 krónur.
Létti bensínbíllinn greiðir því 50% hærra kílómetragjald en þungi rafbíllinn mun gera. Er það sanngjarnt? Vegslit er háð þyngd bíla. Hvers vegna verður hærri skattur á bílinn sem slítur vegunum minna?
Skattar of háir
Frekari samanburð má svo sjá á myndinni hér að neðan. Stórir, þungir og eyðslufrekir bensínbílar munu greiða margfalt hærra gjald fyrir notkun á vegakerfinu en jafn þungir rafbílar.
Ef fjármálaráðherra er búinn að komast að þeirri niðurstöðu að 6 krónur á kílómetrann séu sanngjarnt gjald fyrir afnot af vegakerfinu er augljóst að skattar á bensín og dísil eru alltof háir. En það vissu menn svo sem fyrir.
Er þá ekki allt talið
Þess má svo geta að eigandi rafbílsins fékk virðisaukaskatt af honum endurgreiddan við kaup, þurfti lengstum ekki að greiða nein vörugjöld og greiðir lág bifreiðagjöld. Eigandi bensínbílsins greiddi hins vegar fullan virðisaukaskatt og vörugjöld og bifreiðagjöld að auki. Eigandi bensínsbílsins greiðir svo einnig kolefnisgjald af eldsneytinu en eigandi rafbílsins greiðir engin kolefnisgjöld af hinni miklu losun sem framleiðslu hans fylgdi.
Þarf ríkið að velja bíl fyrir almenning?
Hvers vegna má fólk ekki bara velja og kaupa þann bíl sem þeim best hentar? Hvers vegna er þessi mismunun, neyslustýring og forræðishyggja svona þrálát þegar kemur að bílnum?