Flokkur fólksins boðar þessa dagana miklar skattahækkanir sem vega að lífeyrisréttindum landsmanna. Um er að ræða stórfellda skattlagningu lífeyrisiðgjalda launafólks. Flokkurinn ætlar með þessari aðgerð að hirða nýjan 90 milljarða árlegan skatt af launafólki.
Flokkur fólksins ætlar að fara mjög lævísa leið að þessu með því að taka skattinn ekki af þeim hluta launa sem fólk fær beint í vasann heldur af þeim hluta launa sem er ætlað að byggja upp lífeyrisréttindi. Nýi skatturinn nemur hátt í hálfri milljón á hvern launamann að meðaltali á ári.
Þessi skattlagning á lífeyri landsmanna – áratugum áður en hann kemur til útborgunar – mun leiða til stórfelldrar skerðingar lífeyrisréttinda. Stór hluti af útsæðinu verður étinn. Minna fé verður því til ávöxtunar um áratugi. Tryggingavernd lífeyrisréttinda mun einnig minnka, þar með talinn örorkulífeyrir. Líkt og margar aðrar skattahækkanir í gegnum tíðina mun þessi rýra skatttekjur ríkissjóðs þegar fram í sækir.
Eins og menn þekkja er svo engin trygging fyrir því að ekki verði einnig tekinn skattur af lífeyrinum þegar hann kemur til útborgunar. Þessi atlaga Flokks fólksins sýnir að það eru engin takmörk fyrir ósvífnum tillögum um skattahækkanir og skerðingar lífeyrisréttinda.