Píratar, Sjálfstæðisflokkur, VG, Viðreisn, Samfylking og Framsókn hafa nýlega lýst því yfir að banna beri bíla sem ganga fyrir bensíni eða Diesel. Bannhugmyndirnar eru ýmist settar fram í stefnuskrám flokkanna eða í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem kynnt var í sumar.
Bannið á að taka gildi á árunum 2025 til 2030, misjafnt eftir flokkum.
Eftir að flokkarnir voru spurðir um þetta í umræðuþáttum í kosningabaráttunni hrukku þeir hins vegar í bakkgír og hafa hver á eftir öðrum reynt að drepa málinu á dreif. Það er ákveðinn áfangi þótt menn segi oft hvað sem er rétt fyrir kosningar þegar þeir skynja andstöðu kjósenda við hugmyndir af þessu tagi.
Hlutur ríkisstjórnarflokkanna í þessu er sérstakur. Á meðan VG fór með umhverfisráðuneytið var stefnt að því að banna bílana árið 2030. Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn tók við ráðuneytinu var hins vegar sett fram hugmynd í nýjustu aðgerðaáætluninni í loftslagsmálum um að flýta banninu til 2028. En ekki nóg með það. Í þessari nýju aðgerðaáætlun er bíleigendum hótað með mjög berorðum hætti:
Ríkisstjórnin hótar bíleigendum ekki aðeins bílabanni heldur einnig að:
(I) Eldsneyti verði gert sífellt dýrara og orkurýrara með kröfum um aukinn hlut lífeldsneytis. (II) Stigvaxandi gjöldum (lötum!) á bíla þar til þeir verði alfarið bannaðir.
Stjórnarflokkarnir fylgdu þessum hótunum eftir með því að hækka kolefnisgjald á bensín, Diesel og gas um 55 – 60% í síðustu viku.