Eitt af síðustu verkum ríkisstjórnarinnar var að keyra í gegnum þingið 55-60% hækkun á kolefnisgjaldi sem leggst á bensín, Dieselolíu og gas. Gera má ráð fyrir að um sé að ræða nær 6 milljarða skattahækkun á ári á heimilin og fyrirtækin í landinu. Á endanum greiðir almenningur þetta auðvitað að mestu leyti því kolefnisgjaldið á fyrirtækin kemur fyrr eða síðar fram í hærra verði á vöru og þjónustu.
Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins lagðist gegn hækkunum ríkisstjórnarinnar á kolefnisgjaldinu.
Almennt verðlag hefur þegar hækkað um 24% á þessu þriggja ára kjörtímabili sem nú er að ljúka. Var ástæða til að hella olíu á þann eld með hrikalegum skattahækkunum af þessu tagi?
Í skýrslu hagfræðistofnunar HÍ um áhrif kolefnisgjalds segir að jafnaði renni
stærri hluti tekna til eldsneytiskaupa hjá fólki með litlar tekjur en þeim sem meiri efni hafa. Þess vegna verða kolefnisgjöld á eldsneyti til þess að munur á ráðstöfunartekjum eykst lítillega.
Kolefnisgjaldið bitnar því sérstaklega á tekjulágu fólki, sem þegar á erfitt með að reka bíl vegna kostnaðar, en þarf nauðsynlega á bíl að halda.
Í kynningu á fjárlagafrumvarpinu í haust var því sérstaklega flaggað að krónutölugjöld – eins og kolefnisgjaldið er – myndu aðeins hækka um 2,5%. Þessi allt að 60% hækkun er auðvitað óravegu frá þeirri yfirlýsingu.
Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa skákað í því skjólinu undanfarin ár að mörg óþurftarverk ríkisstjórnarinnar hafi verið að kröfu VG. Hver var þá ástæðan að þessu sinni?
Ástæðan er auðvitað sú að það er stefna þessara flokka að skattleggja bíla landsmanna í drep. Það er sagt berum orðum í aðgerðaáætlun þeirra í loftslagsmálum sem kynnt var í sumar. Þar var kafli með hið lýsandi heiti „Hagrænir latar á ökutæki knúin jarðefnaeldsneyti.“ Þar sagði:
Stigvaxandi bifreiða- og vörugjöld á ökutæki, knúin jarðefnaeldsneyti, til samræmis við losun þeirra þar til nýskráning ökutækja, knúnum eingöngu jarðefnaeldsneyti, verður óheimil.
Óhætt er að segja að með 60% hækkun kolefnisgjalds séu flokkarnir búnir að fylgja þessari hótun úr hlaði.