Böð og bönn

Var nauðsynlegt að banna kvenna- og karlaklósettin?

Ríkisvaldinu er fátt óviðkomandi. Það taldi sig nýlega eiga brýnt erindi inn á salerni í fyrirtækjum og stofnunum landsins. Ekki dugði minna en að sjálft orku- og loftslagsráðuneytið setti nýtt ákvæði um snyrtingar í reglugerð um hollustuhætti.

Upphafsorð reglugerðarinnar um æskilegt fyrirkomulag eru vissulega sakleysisleg. En svo kárnar gamanið. Í seinni hlutanum er kveðið á um bann við kvenna- og karlasnyrtingum sé sú þriðja ekki í boði. Dömur mínar og herrar, taka skal niður merkingar á snyrtingum eða bæta þeirri þriðju við.

Hingað til hafa menn leyst salernismál á vinnustöðum með ýmsum hætti. Ekki eru miklar fréttir af þeim sem hefur ekki verið gert til geðs í þessum efnum. En það kann að hafa farið hljótt.

Ríkisvaldið spyr auðvitað ekki hvort til sé pláss eða peningur í fyrirtækjum til að mæta svona skipunum um að bæta við baðherbergi ef ekki vill betur til.

Ríkið áttar sig heldur ekki á því að flest fyrirtæki og jafnvel stofur, setur og stofnanir hins opinbera reyna almennt að gera starfsmönnum sínum, gestum og gangandi til hæfis. A.m.k. þau sem vilja halda í góða starfsmenn og viðskiptavini.

Einn galli til á svona skipunum að ofan er svo að menn fá ekki frið til að prófa sig áfram í leit að lausnum. Þú skalt bara gera þetta svona eða svona. Ella kemur heilbrigðiseftirlitið og sektar þig eða skellir í lás.

Hefði þetta mál ekki bara verið leyst í rólegheitum með tíð og tíma eins og flest annað í mannlegum samskiptum án þessarar merku reglugerðar orku- og loftslagsráðuneytisins?

En þá hefði ráðuneytið auðvitað ekki fengið tækifæri til að dyggðaflagga.