Tekjuskattur einstaklinga var bæði hækkaður og flæktur verulega eftir að vinstri stjórnin tók við völdum 2009. Til viðbótar við persónuafslátt, sem gerir skatthlutfallið sívaxandi með auknum tekjum, voru sett þrjú þrep sem auka jaðaráhrifin enn frekar. Möguleikar hjóna til samnýtingar réttinda voru um leið skertir.
Þetta ágenga tekjuskattskerfi frá vinstri stjórninni, sem fór frá völdum 2013, er óbreytt í megindráttum nú rúmum áratug síðar. Hæsta skattþrepið er hærra nú en þegar vinstri stjórnin fór frá völdum en hin þrepin lægri. Persónuafsláttur hefur ekki haldið í við verðlag. Viðmiðunarmörkum fyrir þrep hefur verið breytt jafnt og þétt. Launþegar greiða nú allt frá engum tekjuskatti upp í rúm 46%.
Hvernig á að bera saman svo flókið kerfi milli ára?
Vegna þess hve kerfið var gert flókið og breytingar eru tíðar á hinum ýmsu hlutföllum og fjárhæðum er snúið að bera saman einstök tímabil. Er tekjuskatturinn til dæmis hærri nú en hann var þegar Jóhanna og Steingrímur höfðu lokið sér af við skattahækkanirnar?
Það verður eiginlega ekki gert nema með þeim einfalda hætti að skoða hvað hið opinbera (ríki og sveitarfélög) tekur stóran hluta skattstofnsins til sín. Hvað tekur hið opinbera stóran hlut af öllum tekjum fólksins í landinu? Er það hlutfall að minnka eða stækka? Undir þessari skilgreiningu eru því allir skattskyldir einstaklingar á landinu, fólk í fullri vinnu, hlutastörfum, námsmenn, eldri borgarar o.s.frv.
Niðurstaðan kemur á óvart
Fyrirfram mætti kannski ætla að vinstri stjórnin 2009 – 2013 hefði „vinninginn“ í þessum efnum. Hún var fræg fyrir skattpíningu.
Miðað við þær upplýsingar sem Andríki fékk frá Skattinum í vikunni hefur sá hlutur sem hið opinbera tekur til sín af launatekjum lítið breyst undanfarinn áratug. Hið opinbera hefur ekki notað tækifærið á þessu mikla hagvaxtarskeiði til að slaka á klónni. Það hefur haldið sínu hlutfalli af kökunni þótt landsmenn hafi bakað stærri og stærri köku. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á tekjuskattinum undanfarinn áratug hafa ekki dugað til að lækka skatthlutfallið.
Fullyrðingar um að menn hafi lækkað tekjuskattinn undanfarinn áratug eru því í besta falli hæpnar. Hitt er svo ekki síður vont að menn halda enn í hina árásargjörnu þrepaskiptingu. Hún refsar hverjum þeim sem vogar sér að auka tekjur sínar. Ekki síst þeim sem leggja mikið á sig um hríð, hvort sem er til að koma atvinnurekstri á legg, koma sér þaki yfir höfuðið eða bæta hag sinn á annan hátt.