Hvorki veik né smitandi en samt lokuð inni

Ekki var gert ráð fyrir að Íslendingar greindust með gamalt og óvirkt smit.

Myndirnar hér að neðan eru af upplýsingavef stjórnvalda um þróun veirufaraldursins. Þær sýna uppsafnaðan fjölda jákvæðra skimana frá 15. júní 2020 til 30. ágúst 2021.

Myndin til vinstri sýnir skimanir innanlands. Myndin til hægri sýnir skimanir ferðalanga á landamærunum. Stærstan hluta tímabilsins var tvöföld skimun með 5 daga sóttkví á milli á landamærunum.

Myndirnar voru fjarlægðar af upplýsingavefnum í byrjun árs 2022.

Þótt myndirnar sýni báðar sömu skimanir fyrir sömu veirunni eru þær furðu ólíkar að tvennu leyti.

Ferðalangar og Frónbúar

Annars vegar greinist um þriðjungur (312 af 1.032) virkra smita frá útlöndum ekki fyrr en eftir endurtekna skimun. Er það ekki vísbending um að næmi hinna margrómuðu PCR prófa hafi verið óviðunandi? Prófin virðast hafa veitt mönnum falskt öryggi í óþægilega mörgum tilvikum.

Hins vegar reyndust um 40% (680 af 1712) af þeim sem mældust jákvæðir á landamærunum vera með mótefni. Þessi stóri hluti reyndist því ekki með „virkt“ smit eins og það var orðað og var því ekki talinn smitandi.

Hátt hlutfall fær þarna jákvæða niðurstöðu í skimun á landamærunum en reynist síðan ekki með „virkt“ smit.

En hvers vegna greindist engin með mótefni af þeim 7.834 sem greindust jákvæðir innanlands á þessu tímabili? Engin!

Hverju svarar landlæknirinn?

Andríki leitaði svara við því hjá embætti landlæknis hvers vegna smitin frá útlöndum voru flokkuð í „virk smit“ og „með mótefni“ en smitin innanlands ekki. Í svari embættisins 25. nóvember sl. segir:

Virk smit voru þau smit sem greindust á landamærum með sýnatöku (öndunarfærasýni) og rannsókn gaf til kynna nýlega sýkingu. Einstaklingur var talinn smitandi og þurfti að sæta einangrun sbr. reglugerð. „Með mótefni“ voru þeir einstaklingar sem greindust með mótefni (blóðprufa) sem gaf til kynna að sýkingin væri gömul og einstaklingur var því ekki talinn smitandi. Mótefnamæling var gerð ef sýnataka gaf til kynna eldri sýkingu og viðkomandi hafði sögu um fyrri sýkingu. Ekki var þörf á einangrun hjá þeim einstaklingum, nema á meðan verið var að kanna mótefnastöðuna.

Á landamærum var um að ræða skimun einkennalausra ferðamanna en innanlands var helst um að ræða sýnatökur hjá einstaklingum með einkenni eða hjá þeim sem höfðu verið útsettir fyrir smiti vegna nándar við sýktan einstakling. Þetta voru því ólíkir hópar. Öndunarfærasýni getur greint sýkingu eftir að veikindum lýkur þegar viðkomandi er ekki lengur talinn smitandi en hægt er að leggja mat á það með niðurstöðu rannsóknar og mótefnamælingu.

Rök skortir fyrir mismunun

Af svarinu má ráða að það hafi einfaldlega ekki verið gert ráð fyrir þeim möguleika að skimanir innanlands gætu hitt á einstakling sem hefði þegar fengið Covid. Ekki var talið raunhæft að greinast jákvæður innanlands án þess að vera smitandi. Það var gert á þeirri forsendu að góðar líkur væru á að um nýlegt smit væri að ræða ef einstaklingur var á annað borð mættur í sýnatöku.

Þetta er ekki sannfærandi skýring á þessari mismunun. Lengstum var hlutfall jákvæðra af greindum sýnum mjög lágt í bæði innanlandsskimunum og á landamærunum. Langflestar skimanirnar innanlands reyndust fálm út í loftið.

(Að skima svo oft þar sem raunverulegt smithlutfall er lágt skapar sérstakt vandamál. Gengið er út frá því að falskar jákvæðar niðurstöður, þar sem einstaklingur greinist jákvæður þótt hann sé hvorki með óvirkt né virkt smit, séu fremur sjaldgjæfar. En þegar skimað er mjög mikið í hópi með lágt smithlutfall getur hlutfall falskt jákvæðra eðlilega orðið hátt miðað við raunverulega jákvæða.)

Smitaðir margfalt fleiri en greindir?

Auk þess vildi svo til að Íslensk erfðagreining skimaði fyrir algengi mótefna gegn veirunni fyrir hönd sóttvarnalæknis á tímabilinu 3. apríl til 20. júní 2020. Niðurstaðan var að 1,3% mældust með mótefni en á sama tíma höfðu aðeins 0,5% þjóðarinnar greinst með veiruna. Að þessu tilefni sögðu sóttvarnayfirvöld mönnum jafnframt „að hafa í huga að hluti þjóðarinnar kann að hafa smitast af SARS-CoV-2 eða jafnvel skyldum kórónaveirum og öðlast frumubundið ónæmi án mótefnamyndunar í blóði.“

Gildar ástæður voru því til að gera ráð fyrir þeim möguleika í hinum tíðu innanlandsskimunum að ekki væri um virkt smit að ræða heldur gamalt smit. Með öðrum orðum að sá sem væri greindur jákvæður væri hvorki veikur né smitandi.

Greint smit hér á landi hafði afdrifaríkar afleiðingar fyrir viðkomandi einstakling, fjölskyldu hans, vini og vinnufélaga. Eitt greint smit leiddi yfirleitt til sóttkvíar og skimunar fyrir marga þótt enginn væri veikur eða smitandi.

Hve margir voru þá lokaðir inni út á óvirkt smit?

Engin leið er að áætla út frá fyrirliggjandi gögnum hve stór hluti þeirra sem greindir voru jákvæðir í skimunum innanlands á þessu tímabili voru greindir út á gamalt og óvirkt smit. Vonandi var það lægra en þau 40% þeirra sem greindust jákvæð en reyndust svo með óvirkt smit á landamærunum. Því ef það væri nálægt hlutfallinu á landamærunum hafa mörg þúsund Íslendingar setið í einangrun og sóttkví út á ranga sjúkdómsgreiningu.