Sátu þrjúþúsund sinnum hjá – gagnrýna aðra þingmenn fyrir vinnubrögð

Þeir þingmenn sem hafa lítið efnislegt fram að færa tala jafnan mest um „vinnubrögðin á alþingi“ og að „traustið á alþingi sé lítið“. Fáir hafa náð meiri leikni í fela eigið erindisleysi með þessum hætti en Helgi Hrafn Gunnarsson sem sat á þingi fyrir Pírata á síðasta kjörtímabili. Hann gefur nú kost á sér til endurkjörs og er strax farinn að senda þinginu glósur og umvandanir um vinnubrögðin. Og í nýju kosningaefni Pírata kemur fram að þegar þeir hafi náð völdum „í framtíðinni okkar“ þurfi enginn að skammast sín lengur fyrir íslensk stjórnmál.

hhg_skammastsinEn hvernig voru þá vinnubrögð hins háttvirta þingmanns sem er svo duglegur að gagnrýna aðra þingmenn fyrir slök vinnubrögð? Ætli þau hafi ekki verið til fyrirmyndar og til þess fallin að auka traust á þinginu?

Þegar atkvæðaskrá hans fyrir hið stytta kjörtímabil (2013-2016) er skoðuð kemur í ljós að í 1.112 atkvæðagreiðslum treysti hann sér ekki til að taka afstöðu til mála.

Auðvitað kemur það fyrir að þingmenn eru ósáttir við eitt atriði í lagafrumvarpi og vilja ekki styðja það og heldur ekki greiða atkvæði gegn frumvarpinu í heild. En hjáseta í mörg hundruð eða yfir þúsund málum er af allt öðrum toga.

Hinar 1.112 hjásetur Helga Hrafns þýða að nokkrum sinnum á hverjum þingfundardegi vissi hann einfaldlega ekki hvort hann væri með eða á móti málum sem voru til umfjöllunar í þinginu. Hann hafði bara ekki hugmynd um hvað var í gangi.

Fjölmiðlar spurðu Píratann auðvitað ekki hverju þetta sætti því hann var jú svo duglegur að gagnrýna aðra þingmenn fyrir vinnubrögðin.

Eina skiptið sem hann þurfti að svara fyrir hjásetu var á Facebook haustið 2016 þegar Píratar sátu hjá þegar frumvörp er vörðuðu nýja búvörusamninga komu til atkvæða. Helgi Hrafn svaraði gagnrýnni með þessum orðum:

Ef við værum með mótaðar hugmyndir um kerfi til að taka við þessu, þá hefðum við sjálfsagt greitt atkvæði gegn þessu.

Stjórnmálaflokkur sem starfað hefur um árabil á þingi hefur ekki stefnu í landbúnaðarmálum.

En Helgi Hrafn var ekki einn Pírata um hjásetuna. Jón Þór Ólafsson sat 1.285 sinnum hjá og Birgitta Jónsdóttir treysti sér ekki til að taka afstöðu 1.074 sinnum á síðasta kjörtímabili. Samtals er þetta 3.471 hjáseta.

Hverjir þurfa nú helst að skammast sín fyrir vinnubrögðin?