Hver kom vinstristjórninni til valda?

Minnihlutastjórn í boði Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum 1. febrúar 2009.

Í janúar 2009 varð upplausn í íslenskum stjórnmálum á versta tíma. Samfylkingin hljóp úr ríkisstjórn eftir að fundarmenn á fundi samfylkingarfélags Reykjavíkur í Þjóðleikhúskjallaranum létu undan skrílslátum og skemmdarverkum fyrir utan fundarstað. Skjálfandi fundarmenn skoruðu á þingmenn flokksins að slíta ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Samfylking og VG höfðu ekki þingmeirihluta, heldur aðeins 27 þingmenn, en tóku samt við völdum nokkrum dögum síðar. Hvernig í ósköpunum vildi það til?

Í Framsóknarflokknum var þá nýkjörinn formaður sem sat utan þings. Hann bauð af höfðingskap sínum að Framsóknarflokkurinn myndi verja minnihlutastjórn Jóhönnu og Steingríms vantrausti gegn því að kosið yrði sem fyrst – svo hann kæmist á þing. Mikilvægustu málin í forgang. Skynsemishyggja. Önnur krafa Framsóknarflokksins var að stjórnarskrá lýðveldisins yrði kastað í ruslakörfuna og lét flokkurinn útbúa endemis myndband um þá stefnu sína og vinstri stjórnarinnar sem hann kom á koppinn.

koma_vg_og_samfylkingu_i_stjorn

Með þessu töldu framsóknarmenn sig hafa friðmælst við fólkið sem telur að öskur og útifundir geti ógilt niðurstöðu lýðræðislegra kosninga. Sjálfsagt hefur framsóknarmönnum þótt það nokkuð snjall leikur hjá sér, allt þar til í apríl 2016.

En niðurstöður þingkosninganna sem Framsóknarflokkurinn knúði fram í apríl 2009 voru eins og menn þekkja. Við tóku fjögur ár af skattpíningu og þjónkun við erlendra kröfuhafa til að greiða leið Íslands inn í Evrópusambandið.

Og nú hefur sami maður og kom þessum ósköpum til leiðar klofið Framsóknarflokkinn rétt fyrir kosningar til að auðvelda myndun annarrar hreinnar vinstristjórnar.