Baráttan gegn þjóðnýtingu einkaskulda

Advice hópurinn leiddi baráttuna gegn síðustu tilraun vinstri stjórnarinnar til að hneppa Íslendinga í Icesave ánauðina. Myndin er frá blaðamannafundi forsvarsmanna hópsins daginn eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 9. apríl 2011. Mynd: Skjáskot af mbl.is.

Nú þegar hugmyndir eru á kreiki um að ríkissjóður Íslands stofni „stöðugleikasjóð“ eða „auðlindasjóð“ má velta því fyrir sér hvað hefði orðið um slíkan sjóð haustið 2008. Er ekki líklegast að honum hefði verið kastað á bankabálið í von um að „bjarga“ fjármálakerfinu?

Ætli hefði staðið á þeim sem töldu „okkur“ bera ábyrgð á skuldum einkabanka við fjármagnseigendur í Bretlandi og Hollandi að afhenda slíkan sjóð upp í skuldina?

Það kann að vera fallega hugsað fyrir land og þjóð að vilja stofna slíkan varasjóð en því miður eru verulegur líkur á því að honum yrði á endanum eytt í að leysa vandamál sem ekki er þörf á að leysa. Þar sem lausnin er verri en vandamálið sjálft.

Ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans er einmitt dæmi um lausn sem hefði verið verri en upphaflegt vandamál. Og þá er ekki bara verið að ræða um hættuna á því að mörg hundruð milljarðar króna í erlendri mynt myndu falla á skattgreiðendur næstu áratuga. Nei, fordæmið sem ríkisábyrgð á Icesave skuldunum hefði sett hefði verið jafnvel verra.

Í dag eru fjögur ár liðin frá því tilraunum ESB og hollenskra, breskra og íslenskra (!) stjórnvalda til að koma ábyrgð á Icesave skuldunum yfir á íslenskan almenning lauk. Það gerðist með niðurstöðu EFTA dómstólsins sem lengi hafði verið fullyrt að myndi aldrei dæma Íslendingum í hag. Íslendingar ættu því ekkert að láta reyna á rétt sinn í málinu heldur undirgangast ánauðina baráttulaust.

En þótt flestar valdastofnanir samfélagsins, helstu hagsmunasamtök, stærstu fjölmiðlarnir, nánast allir iðnustu álitsgjafarnir, endurreistu bankarnir, matsfyrirtækin og alþjóðastofnanir hafi lagst á eitt um að sannfæra Íslendinga um að þeir ættu að taka sameiginlega ábyrgð á þessu mislukkaða viðskiptaævintýri einkafyrirtækis þá tókst það ekki.

Það er saga með fallegan endi.