Velferðarríkið 30% – frjálst framtak 3000%

Úr eldhúsi Hvíta hússins um 1892. Mynd: Shutterstock/Everett Historical.

Deirdre McCloskey prófessor í hagfræði ritar grein í nýjasta hefti tímaritsins Reason um þrjár stórar hugmyndir: tvær vondar og eina góða.

Þær tvær vondu sem hún nefnir eru þjóðernishyggja og sósíalismi. McCloskey bendir þeim á sem hrífast af þessum hugmyndum að kannski megi þá bjóða mönnum blöndu þeirra, þjóðernissósíalismann eða nasismann.

Góða hugmyndin hafi hins vegar streymt úr pennum manna á borð við Voltaire, Thomas Paine, Mary Wollstonecraft en fyrst og fremst Adams Smith sem árið 1776 lýsti því að hver maður ætti að vera frjáls af því að bæta hag sinn eins og hann sjálfur kysi á grundvelli jafnræðis, frelsis og réttlætis.

McCloskey reiknast til að með hinu frjálsa framtaki manna á Vesturlöndum hafi tekjur hins almenna manns þrítugfaldast að raunvirði frá árinu 1800 til dagsins í dag. Það sé um 3000% bæting. Þetta sé algerlega einstakt í veraldarsögunni. Í Rómaveldi eða Grikklandi hafi menn í besta falli getað vænst þess að tvöfalda tekjur sínar á einni öld en þegar veislunni lauk hafi allt farið til fyrra horfs.

Til samanburðar nefnir prófessorinn jafnframt að velferðarríki nútímans með öllum sínum tilþrifum bæti hag manna hugsanlega um 30%.