Þrjár mikilvægar ræður

Engin sjónvarpsstöð er jafn mikil einkastöð - starfsmanna - og Ríkisútvarpið.

Allir vita hvert var mál málanna á alþjóðlegum vettvangi í dag. Mannaskipti í valdamesta embætti heims og ekki aðeins breytt um mann heldur manngerð í embættinu. Um allan heim beið fólk eftir því hvaða áherslur hinn nýi forseti myndi kynna í inntökuávarpi sínu. Í ræðu, sem yrði fylgst með um allan heim, myndi hann leggja línurnar af meiri þunga og alvöru en hann gerði í misábyrgum twitter-tístum áður en hann tók við embætti.

Fréttastofa íslenska ríkissjónvarpsins birti bút úr ræðunni í aðalfréttatíma sínum sama kvöld. Það sýnir mikilvægi ræðunnar í huga fréttastofunnar því þetta var ekki eina mikilvæga ræðan sem flutt hefur verið í Washington síðasta sólarhringinn.

Ríkissjónvarpið sýndi í fréttatíma sínum 23 sekúndur úr ræðu nýja Bandaríkjaforsetans. Svo sýndi fréttastofan 33 sekúndur úr ræðu sem Michael Moore kvikmyndaleikstjóri flutti á útifundi gegn forsetanum og svo 15 sekúndur úr ræðu sem Alec Baldwin leikari flutti á útifundi gegn forsetanum.

Það var því í mörg horn að líta.