Hinir eru lýðskrumarar

Mynd: Shutterstock/J. Bicking.

Síðustu mánuði hefur töluvert aukist að menn séu kallaðir lýðskrumarar, eða pópúlistar. Eftir að niðurstaða bresku þjóðaratkvæðagreiðslunnar varð sú að Bretland yfirgæfi Evrópusambandið, Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna, frambjóðandi þjóðernissinna var næstum kjörinn forseti Austurríkis og þjóðernissinnaðir flokkar sækja mjög á í flestum Evrópulöndum, hafa margir talað um uppgang pópúlista. Nú sæki pópúlistar á.

En hverjir eru lýðskrumarar?

Það eru hinir.

Er nokkurn tíma sagt að það sé lýðskrum að segja fólki látlaust að það eigi „fiskinn í sjónum“ og að þeir sem stunda sjávarútveg séu að veiða „fiskinn okkar“. Þeir eigi að borga „okkur“ fyrir að fá að veiða „fiskinn okkar“. Hvað höfum „við“ gert til að eignast þennan fisk?

Þegar lög tala um „sameign þjóðarinnar“ er það í þeirri merkingu að þeir sem nýta auðlindina verða að gera það þannig að hún eyðist ekki. Hugtakið er ekki notað í þeirri merkingu að „þjóðin“ eigi fiskinn, rétt eins og menn geta átt húsið sitt eða vettlingana sína.

Hvers vegna eru þeir „pópúlistar“ sem segja að ekki eigi að opna land upp á gátt heldur hugsa fyrst og fremst um réttindi þeirra sem þar búa, en þeir aldrei, sem segja að þeir sem aldrei hafa komið nálægt sjávarútvegi eigi skilið að fá greitt auðlindagjald frá þeim sem gera út. Hvers vegna er lýðskrum að tala um landið okkar, en ekki að tala um fiskimiðin okkar?

Nú hefur Eiríkur Bergmann Einarsson sent frá sér bók sem hann nefnir Nordic Nationalism and Right-Wing Populist Politics. Í viðtali við Ríkisútvarpið sagði hann eitthvað á þá leið að dæmigerður kjósandi lýðskrumsflokka væri maður sem hefði gengið illa efnahagslega og kenndi alþjóðavæðingunni um. En hvað um þá sem  kenna því um að þeir hafi ekki fengið nægilega greitt fyrir aðgang að auðlindinni sinni? Eða ef þeir telja að skýringin sé sú að gráðugir ríkir menn hafi komið hluta eigna sinna fyrir í skattaskjóli og borgi þess vegna ekki alveg eins mikið til ríkisins og þeir gerðu ella? Eru þeir þá kjósendur vinstrisinnaðra lýðskrumsflokka?

Fjölmiðlamenn kalla þjóðernissinnaða flokka oft hægriflokka, eða öfgahægriflokka, þótt í fæstum tilvikum sé margt í stefnu þeirra sem er hægra megin við miðju. „Öfgahægriflokkarnir“, berjast þeir fyrir skattalækkunum? Einstaklingsfrelsi? Minna ríkisvaldi? Fjölmiðlamenn kalla þessa „hægriflokka“ oft lýðskrumara. En í skilgreiningum fjölmiðlamanna og annarra er sjaldan talað um vinstrisinnaða pópúlistaflokka. Eru engir vinstrimenn lýðskrumarar? Er þar bara allt byggt á staðreyndum, ólíkt skruminu á hægrivængnum?

Auðvitað eru margir stjórnmálamenn lýðskrumarar. Þeir segja það sem þeir halda að kjósendur vilji heyra. Þeir hlusta eftir almenningsálitinu og reyna að hafa sömu afstöðu. Það er mjög líklegt að bæði hægriflokkar og vinstriflokkar í öllum löndum hafi slíka stjórnmálamenn innan sinna raða, rétt eins og bæði hægriflokkar og vinstriflokkar hafa einlæga hugsjónamenn sem hræðast ekki að tala gegn almenningsálitinu. Það sem er ósennilegt er að úti um allt séu hægrisinnaðir lýðskrumsflokkar en vinstriflokkarnir stundi ekkert slíkt.

Séu menn ósammála öðrum eiga þeir að mæta þeim rökum, frekar en uppnefnum. Því verri sem skoðanir annarra eru, því auðveldara er að mæta þeim með rökum.