Landsbyggðin „fékk“ ráðherra og þingforseta í réttu hlutfalli

Mynd: kosning.is.

Það sjónarmið hefur heyrst að undanförnu að fáir ráðherrar í nýrri ríkisstjórn séu úr landsbyggðarkjördæmunum þremur og þar af leiðandi of margir af höfuðborgarsvæðinu.

Í kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu voru við síðustu þingkosningar 67% kjósenda. Þaðan eru þó aðeins kjörnir 55% þingmanna, 35 af 63. Þingmenn höfuðborgarsvæðisins ættu að vera 42 ef vægi atkvæða væri jafnt á landinu.

Það eru því að minnsta kosti tveir þingmenn í hverju landsbyggðarkjördæmanna þriggja sem sætu ekki á þingi ef vægið væri jafnt. Í stað þeirra kæmu fjórir Reykvíkingar og þrír úr nágrannasveitarfélögum borgarinnar.

Sjálfsagt er að hafa þetta í huga þegar menn telja að landsbyggðin beri skarðan hlut frá borði við stjórn landsins.

En hallaði á landsbyggðina við ráðherravalið?

Ráðherrarnir eru 11 að þessu sinni en vart er hægt að ræða þessi mál án þess að taka forseta þingsins með í reikninginn. Laginn forseti hefur mikil áhrif á dagskrá þingsins og framgang mála. Þrír ráðherrar og væntanlegur forseti þingsins voru kjörnir á þing úr landsbyggðarkjördæmunum. Það er því þriðjungur af landsbyggðinni í þessum áhrifastöðum en það er einmitt hlutfall kjósenda af landsbyggðinni. Landsbyggðin „fékk“ því áhrif í réttu hlutfalli við fjölda kjósenda.

En þessi umræða er auðvitað til lítils gagns því ráðherrum er ætlað að starfa fyrir landið allt eða réttar sagt fyrir fólk um land allt. Kröfur um ráðherra „fyrir“ ákveðið kjördæmi eru því einskonar ósk um ráðherra sem ætlar sér ekki að starfa í þágu allra landsmanna.

Þar við bætist að í þessari talningu er til dæmis fjármálaráðherrann Reykvíkingurinn Benedikt Jóhannesson þingmaður Norðausturkjördæmis en umhverfisráðherrann Björt Ólafsdóttir úr Biskupstungum er talin fulltrúi Reykjavíkur. Þetta er því auðvitað ekki jafn klippt og skorið og ætla mætti af umræðunni.