Lög vinstristjórnarinnar leiddu til aukins eldsneytisinnflutnings

Vinstri stjórnin ætlaði sér að draga úr eldsneytisinnflutningi með orkuskiptum í samgöngum en lögin hennar hafa aukið hann.

Á lokametrum vinstristjórnarinnar vorið 2013 voru samþykkt lög sem stuðla áttu að orkuskiptum í samgöngum hér á landi til að auka notkun innlendra orkugjafa og vernda umhverfið.

Tveimur árum áður höfðu verið gerðar breytingar á eldsneytissköttum á þann veg að með hverjum seldum lítra af „endurnýjanlegu“ eldsneyti fengist um 70 króna meðgjöf frá ríkinu. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn um málið í haust kom fram að ríkið leggur til yfir eitt þúsund milljónir króna á ári í þessu skyni.

Með þessu var markið sett á að árið 2020 yrði 5% orkunnar sem íslenski bílaflotinn gengi fyrir af endurnýjanlegum uppruna. Lögin gerðu þó ekki ráð fyrir því eins og sambærileg löggjöf í öðrum Evrópulöndum að rafmagnsbílar nytu sinnar góðu orkunýtni. Rafmagnsbíll nýtir orkuna að jafnaði 2 – 3 sinnum betur en hefðbundinn bíll með bensín eða Dieselvél.  Það myndi því ekki duga Íslendingum að skipta 5% bílaflotans út fyrir rafmagnsbíla til að ná 5% markmiðinu í samgöngum heldur þyrftu 10 -15% bíla að skipta alveg yfir á rafmagn.

Lögin hafa hins vegar ýtt undir innflutning á tugmilljónunum lítra af svonefndu lífeldsneyti, sem framleitt er úr matjurtum. Annars vegar er um að ræða lífolíur sem blandað er í Dieselolíu og hins vegar etanól sem blandað er í bensín. Lífeldsneytið inniheldur minni orku en hefðbundin Dieselolía og bensín. Því hefur þurft að flytja inn fleiri lítra af eldsneyti en áður. Innkaup á lífeldsneytinu, flutningur og meðhöndlun er auk þess dýrari.

Hér verður ekki farið út í neikvæð áhrif framleiðslu lífeldsneytisins á líffræðilega fjölbreytni eða framboð matvæla til þeirra sem minnst mega sín. En niðurstaðan er sú að á þessum „orkuskiptum“ eru allir – umhverfið þar með talið – að tapa nema framleiðendur lífeldsneytis.

Hvað segja ráðherrar vinstri stjórnarinnar eiginlega um þennan árangur af orkuskiptaátaki sínu? Eru þeir ánægðir með að hafa stuðlað að auknum innflutningi eldsneytis?