Að skilja kosningaúrslitin

Mynd: Dennis van de Water/Shutterstock.

Nú ætla menn enn að reyna að mynda fimm flokka vinstristjórn. Að þessu sinni mun Birgitta Jónsdóttir eiga að leiða viðræðurnar og yrði það forvitnilegt fyrir Katrínu Jakobsdóttur ef Birgitta næði meiri árangri við það en hún.

Sú krafa að mynda fimm-flokka vinstristjórn birtir í raun fyrst og fremst átakanlega heift þeirra sem helst tala fyrir hugmyndinni.

Enginn leggur til fimm-flokka stjórn af því að hann haldi að skynsamlegt sé að stjórnarflokkar séu fimm. Enginn leggur þetta til af því að stjórnir margra flokka hafi gefist vel.

Þeir sem leggja til fimm flokka stjórn vilja ekki ræða að hafa stjórnarflokka fjóra, eða hafa stjórnarflokka þrjá.

Eina skýringin á því að reynt er að mynda fimm flokka ríkisstjórn er sú að fimm flokkar er lágmarkið ef menn ætla að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins.

Slíkt er nú ákall kjósenda eftir vinstristjórn. Það er ekki hægt að mynda tveggja flokka stjórn án Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki hægt að mynda þriggja flokka stjórn án Sjálfstæðisflokksins. Það er ekki hægt að mynda fjögurra flokka stjórn án Sjálfstæðisflokksins. Til að mynda stjórn án Sjálfstæðisflokksins þarf að mynda fimm flokka stjórn.

Og þess vegna ætla menn að reyna að mynda fimm flokka ríkisstjórn.

Hvers vegna horfa menn ekki á kosningaúrslitin og draga af þeim ályktanir um það hvaða hugmyndir fengu brautargengi og hvaða hugmyndir fengu ekki brautargengi.

Skattahækkanir fengu til dæmis ekki brautargengi. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn boðuðu skattalækkanir. Viðreisn vill ekki hækka skatta nema í grænum felulitum. Þessir þrír flokkar hafa mun fleiri þingmenn en þeir flokkar sem hugsanlega vilja hækka skatta bara til að hækka þá. Þetta er ein ályktun sem strax má draga af úrslitunum.

Þeir flokkar sem ekki vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið fengu mun fleiri þingmenn en þeir flokkar sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið. Má þá ekki miða við það í eitt kjörtímabil?

Sjálfstæðisflokkurinn talar fyrir einkavæðingu. Aðrir flokkar gera það að litlu eða engu leyti. Kosningaúrslitin eru ekki ákall um einkavæðingu. Það er ekki ósanngjarnt að miða við það næsta kjörtímabil.

Þegar þetta þrennt liggur fyrir, hvernig væri þá að einhverjir flokkar mynduðu ríkisstjórn sem miðaði við þetta? Það þyrfti ekki að þýða að flokkarnir hefðu fallið frá skoðunum sínum í málinu heldur aðeins að þeir hefðu skilið kosningaúrslitin, jafnvel þeir flokkar sem mest og oftast tala um vilja þjóðarinnar.

Rólegar skattalækkanir, ekki skattahækkanir, Ísland utan Evrópusambandsins, ekki mikil einkavæðing ríkiseigna. Er ekki hægt að mynda stjórn einhverra flokka sem sætta sig við að þetta séu meginlínur kjörtímabilsins? Í næstu kosningum geta flokkarnir svo reynt að vinna skoðunum sínum meira fylgi.