PAC

Tvö mikilvæg mál virðist helst valda því að erfiðlega gengur á mynda ríkisstjórn. Annars vegar sjávarútvegsmál og hins vegar Evrópumál. Einkum virðast það nýju flokkarnir, Píratar, Viðreisn og Björt framtíð, sem gera stífa kröfu um stefnubreytingu í þessum málaflokkum.

Hvorki Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur né VG stefna að miklum breytingum í sjávarútvegsmálum. Þessir flokkar hafa samtals 38 þingmenn. Hinir flokkarnir fjórir hafa allir mismunandi hugmyndir hvernig eigi að skipa þessum málum, hvernig megi kollvarpa einu besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heims. Það hlýtur eiginlega að skrifast á einhvers konar reynsluleysi að sjávarútvegsmál séu yfirleitt nefnd í stjórnarmyndunarviðræðum.

Í Evrópumálum er sama staða uppi. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þing þar sem mikill meirihluti þingmanna er andvígur ESB aðild hafi forgöngu um ný skref í þeim efnum. Í því er pólitískur ómöguleiki eins og áður hefur réttilega verið lýst. Ef menn vilja feta þessa leið þurfa menn fyrst að kjósa til valda þingmeirihluta sem er samtaka um það. Slíkur þingmeirihluti gæti svo aflað frekari stuðnings við málið með táknrænni þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo lítinn stuðning virðist frekara brölt í þessum efnum njóta meðal landsmanna að jafnvel flokkar eins og Viðreisn sem stofnaðir voru um þetta mál földu afstöðu sína á bak við óljósa ósk um þjóðaratkvæðagreiðslu. En nú er málið hins vegar notað sem algert úrslitaatriði í stjórnarmyndunarviðræðum.

Þriðja málið sem nefnt hefur verið eru landbúnaðarmálin. Þau geta þó varla verið nefnd í alvöru því fyrir kosningar í haust var þeim því miður lokað og læst með tímalás sem opnast ekki fyrr en eftir áratug.

Við óraunhæfar málefnakröfur nýju flokkanna bætast svo ósmekklegar yfirlýsingar þeirra um að þeir muni ekki starfa með ákveðnum flokki eða flokkum líkt og einhverjir flokkar séu tengdir glæpastarfsemi eða ólýðræðislegum hugmyndum og kjósendur þeirra þar með dómgreindarlausir.

Líklega er það of stór skammtur að nýir og rótlausir endurræsingarflokkar fái þriðjung þingmanna eins og gerðist því miður í haustkosningunum.