Pírati hindrar aðgengi að upplýsingum um rekstur borgarinnar

Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata tók í gær til varna fyrir aðkeypta verktöku Pírata sem flokkurinn greiðir milljónir fyrir en neitar að upplýsa um hverjir þiggi. Um er að ræða peninga sem flokkurinn fær frá skattgreiðendum og ætla mætti að flokkur sem berst fyrir allsherjar „upplýsingafrelsi“ og gagnsæi myndi ekki leyna hvernig er varið. Pírata segja í yfirlýsingu að þessar milljónir til leyniverktakanna séu „ósundurliðaðar vegna persónuverndar.“

Það kemur hins vegar ekki mjög á óvart að Halldór skuli verja þessa leyniverktöku því hann hefur í félagi við aðra vinstri menn í meirihluta borgarstjórnar tafið það árum saman að upplýsingar um kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi aðgengilegar með rafrænum hætti.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að gera þessar upplýsingar aðgengilegar fyrir almenning var samþykkt í borgarstjórn 2. október 2012. Síðan hefur ekkert markvert gerst í málinu. Fjögur ár liðin og allt stopp í kerfinu. Computer says no.

Til að ýta á eftir því að þessari fjögurra ára gömlu samþykkt borgarstjórnar yrði hrint í framkvæmd lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins tillöguna fram aftur 4. október síðastliðinn. Í fundargerð borgarstjórnar frá þeim degi segir:

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

„Borgarstjórn samþykkir að upplýsingar um allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi tiltækar með rafrænum hætti á netinu. Borgarráði er falið að vinna að málinu og skila tillögum hvernig staðið verði að slíku verkefni fyrir 1. febrúar nk.“

Samþykkt að vísa tillögunni frá með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsókn og flugvallarvina.

Sér til málsbóta bókuðu borgarfulltrúar meirihlutans að þetta hefði verið samþykkt fyrir fjórum árum og því ekki ástæða til að gera það aftur.

Halldór Auðar Svansson er formaður stjórnkerfis- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar. Ráðið var stofnað af honum og fyrir hann þegar hann gekk til liðs við vinstriflokkana eftir borgarstjórnarkosningar 2014. Um þetta nýja fína ráð Halldórs segir á vef borgarinnar:

Þá fer stjórnkerfis- og lýðræðisráð með það verkefni að auka aðgang að upplýsingum og gera þjónustu við borgarbúa skilvirkari, markvissari og sýnilegri.

En þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn í stjórnmálasögunni sem þeir sem tala hæst um rétt almennings gleymi honum hraðast þegar í valdastólana er komið.