Einn núverandi formaður studdi Dreka, Bakka, Icesave, ESB og loftárásir á Líbýu

Þeir alvöru vinstri menn sem hafa verið andvígir Dreka, Bakka, Icesave, ESB og loftárásum á Líbýu eiga engan annan kost en Alþýðufylkinguna. Myndin er úr kynningarbás Alþýðufylkingarinnar á fundi fólksins.

Nei Jóhanna er alveg hætt og Steingrímur er ekki formaður lengur. Það er ekki verið að tala um annað hvort þeirra þótt þau hafi verið fylgjandi þessu öllu.

Nei, nei, og það er enn lengra síðan Össur var formaður.

Hvað með einhvern forsvarsmanninn í nýju krataflokkunum? Nei þeir voru ekki á þingi á síðasta kjörtímabili, Benedikt var til að mynda upptekinn við að berjast fyrir ýmsum þessara mála – einkum ESB aðild og ríkisábyrgð á Icesave skuldunum – utan þings.

Formaðurinn með þessa einstæðu ferilsskrá er auðvitað Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Alþýðufylkingin er nefnilega ekki að bjóða fram að ástæðulausu. Vinstri sinnaðir andstæðingar olíuvinnslu í norðurhöfum og á Skjálfanda, stóriðjuvæðingar á Bakka, ríkisábyrgðar á skuldum auðvaldsins, umsóknar um ESB aðild og hernaðarbrölts þurfa að eiga einhvern kost í kosningunum.