Veit einhver hvers vegna það á að fara að kjósa?

Veit einhver hvers vegna stefnt er að alþingiskosningum í lok október? Þegar fjárlagavinnan ætti að vera í fullum gangi? Þegar síðasta þing kjörtímabilsins ætti að vera nýfarið í gang?

Er það vegna Wintrismálsins?

Það var vissulega alvarlegt mál. Í því var miklum hagsmunum leynt, setið beggja vegna borðs, samstarfsmenn blekktir og mikilvægri vinnu ríkisstjórnarinnar stefnt í voða. Í því máli kom þó bara einn stjórnmálamaður við sögu. Málinu lauk ekki með utandagskrárumræðu eða afsökunarbeiðni. Því lauk ekki með því að viðkomandi þyrfti að opinbera persónuleg mál sín. Nei, því lauk hvorki meira né minna en á því að æðsti maður landsins, forsætisráðherrann, sagði af sér eftir að þingflokkur hans gerði honum ljóst að við þetta yrði ekki unað.

Hvað sem mönnum finnst um Wintris-málið, þá getur það ekki kallað á aðgerðir gegn öðrum þingmönnum eða ráðherrum.

Menn ættu að ímynda sér að forsætisráðherrann hefði framið raunverulegan glæp. Lamið einhvern. Jafnvel myrt einhvern. Engum dytti í hug að rjúfa þingið. Ekkert við Wintris-málið kallaði á þingrof. Hvers vegna ætti að afturkalla umboð Kristjáns Möllers, Ögmundar Jónassonar, Guðmundar Steingrímssonar, Einars K. Guðfinnssonar og Helga Hrafns Gunnarssonar, svo nokkrir séu nefndir af þeim sem hverfa nú af þingi, þótt málið hafi komið upp?

Og nei, þingrof helgast ekki af því að „þjóðin“ vilji kjósa núna.

Í fyrsta lagi hefur „þjóðin“ ekki lýst neinni slíkri skoðun. En í öðru lagi, og það er raunar mjög mikilvægt, þá myndi það engu breyta þótt meirihluti landsmanna hefði einmitt lýst því yfir að hann vildi að kosið yrði í lok október.

Það er nefnilega lykilatriði í íslenskri stjórnskipun að þingrof ræðst ekki af því hvaða vilji kann að vera á götum og torgum hverju sinni. Stjórnskipunin er sú að meirihluti Alþingis hefur umboð til fjögurra ára og getur því tekið erfiðar ákvarðanir, sem geta verið óvinsælar til skamms tíma, án þess að hægt sé að koma honum frá með þingrofi. Ef hvorki forsætisráðherra né meirihluti þingmanna vill að þingið sé rofið, þá á ekki að rjúfa þingið fyrr en fjögur ár eru liðin frá kosningum.

Ef þetta væri ekki svona, þá þyrfti ekkert að tala um nein fjögur ár í stjórnarskránni. Þá væri einfaldlega kosið, og svo yrði þingrof þegar meirihluti landsmanna óskaði næst eftir því. Ef meirihlutinn vildi aldrei kjósa aftur, þá þyrfti ekkert að kjósa.

En stjórnskipunin er sú, að þingrof ræðst ekki skoðanakönnunum, undirskriftalistum eða útifundum.

En hvernig stendur á því að fréttamenn spyrja stjórnarandstöðuleiðtogana, þessa sem krefjast þess að efnt verði til kosninga í október, aldrei að því hvort þeir muni á næsta kjörtímabili rjúfa þingið ef meirihluti í skoðanakönnun vill fá þingrof. Varla getur verið að stjórnarandstöðuleiðtogarnrir vilji bara að það gildi um ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn situr í. Hvers vegna heitir enginn leiðtogi stjórnarandstöðunnar að á næsta kjörtímabili muni hann beita sér fyrir þingrofi ef meirihluti reynist fyrir því í skoðanakönnun eða ef olíutunnum er rúllað inn á Austurvöll?

Þögn stjórnarandstöðuleiðtoganna um þetta er jafn áberandi og það, hversu ótrúlega innihaldslaus rök þeirra eru, sem reyna að mæla þingrofi og októberkosningum bót.