Bænaskrá

Bænaskrá frá framleiðendum tólgarkerta, vaxkerta, lampa, kertastjaka, ljósastaura, skarbíta, kertaslökkvara – og framleiðendum tólgar, olíu, trjákvoðu og spritts og öllum sem tengjast ljósaiðnaðinum.

Til hæstvirtra þingmanna

Kæru herrar,

þið eruð á réttri leið. Þið hristið af ykkur allar fræðikenningar; þið kærið ykkur kollótta um gott framboð og lágt verðlag. Þið látið ykkur mestu varða um afkomu framleiðandans. Þið viljið hlífa honum við samkeppni erlendis frá, semsé láta innanlandsmarkaðinn vera fyrir innlenda atvinnustarfsemi.

Við ætlum að bjóða ykkur upp á kjörið tækifæri til að beita… ja, hvernig á að orða það? til að beita kenningu ykkar? – nei, það er víst fátt svikulla en þessar kenningar – tilgátu ykkar? kerfi ykkar? eða kannski vinnureglum ykkar. – En þið eruð víst lítt hrifnir af tilgátum og enn síður af kerfum. Og vinnureglur?! – uss, það eru engar vinnureglur í þjóðhagfræði, eins og þið hafið bent á. Við skulum því segja: aðferðum ykkar, aðferðum sem eru óheftar af tilgátum og vinnureglum.

Við búum við óþolandi samkeppni frá erlendum keppinauti. Og þessi keppinautur framleiðir ljós við svo miklu betri skilyrði en við, að hann fer sem holskefla yfir allan okkar innanlandsmarkað og býður vöru sína á ævintýralega lágu verði. Um leið og hann birtist, hættum við að selja nokkurt snifsi, allir neytendur snúa sér til hans – og stór grein af frönskum iðnaði, sem teygir anga sína út um allt samfélagið, er bara gersamlega skák og mát. Þessi keppinautur, sem nefnist sólin, hefur sagt okkur svo harkalegt verðstríð á hendur að okkur er skapi næst að ætla að þar sé lævís Tjallinn með í ráðum (reyndar bara snjöll utanríkisstefna eins og staðan er núna), enda skín sólin mun minna á Bretlandseyjum en hér hjá okkur.

Við beiðumst þess að þið setjið lög sem kveða á um að menn loki öllum gluggum og skjám og vindaugum, loki gluggahlerum, gardínum og kýraugum – semsagt loki öllum opum, skotraufum og gægjugötum sem sólin hefur nýtt sér til að komast inn í hús hjá fólki. Með þessum hætti hefur sólin getað þrengt ótæpilega að því vandaða handverki sem við höfum fært þjóðinni, og það er ekki nema sanngjarnt að þjóðin veiti okkur lið í svona ójafnri glímu.

Við biðjum hæstvirta alþingismenn að taka þessu ekki sem eintómu sprelli og spaugi. Eða alla vega hafni þessu ekki án þess að hafa hlustað á rökin.

Fyrst er þess að gæta að ef þið lokið fyrir náttúrulegt ljós, eftir því sem kostur er, og skapið þannig aukna þörf fyrir tilbúið ljós, þá er varla nokkur iðngrein í Frakklandi sem ekki mun smám saman njóta góðs af.

Ef það vantar meiri tólg, þá vantar líka fleiri kindur og nautgripi, og menn munu sjá að bithögum fjölgar og það verður meira af kjöti, ull og skinni, og líka húsdýraáburði sem kemur allri jarðrækt til góða.

bastiat

Frédéric Bastiat (1801-1850) höfundur Bænaskrár.

Ef það vantar meiri olíu, þá blómstrar ræktunin á valmúa, ólífutrjám og sólblómum. Þetta eru gjöfular plöntur en einnig þurftarfrekar á næringu, og það verða full not fyrir aukið framboð af húsdýraáburði.

Sandarnir okkar verða þaktir trjám til trjákvoðuframleiðslu. Herskarar af býflugum munu svífa um dali og fjöll að sækja ilmandi fjársjóði, sem nú standa ónýttir í blómunum. Þannig verður þetta framfaraspor fyrir allar greinar landbúnaðarins.

Og sama er að segja um skipaútgerðina: þúsundir skipa halda af stað til hvalveiða, og brátt eignumst við skipaflota sem Frakkar geta verið stoltir af. Við í ljósabransanum erum ekki minni föðurlandsvinir en hver annar.

En hvernig skyldi verða með höfuðstaðinn París? Það er óhætt að gera sér í hugarlund kertastjaka, lampa og ljósakrónur, fagurlega gyllt og prýtt kristöllum í bak og fyrir – skínandi og blikandi í svo stórum verslunum að ljósabúðirnar núna munu virðast eins og litlar sjoppuholur.

Það er ekki bara fátækur trjákvoðusafnarinn uppi á heiði, eða lúinn námamaðurinn í iðrum jarðar sem fær launahækkun.

Hugsið bara málið kæru herrar – og þið hljótið að sjá að það er varla nokkur Frakki, allt frá stóreignamönnun til eldspýtnasalans á götunni, sem ekki uppsker ríkulega ef beiðni okkar nær fram að ganga.

Raunar sjáum við fyrir hvaða mótbárur þið gætuð komið með, kæru herrar; en gætið þess að það er ekki um neina mótbáru að ræða, sem ekki er einnig að finna í gulnuðum skræðum þeirra sem predika frjálsa verslun. Við skorum á ykkur að hreyfa andmælum sem ekki eru líka andmæli við ykkar eigin stjórnunaraðferðum.

Ætlið þið kannski að segja: „Þið hagnist á þessu, en ekki landsmenn almennt, því það er neytandinn sem borgar brúsann.“?

Þá svörum við til: „Þið eigið ekkert með að vísa til hagsmuna neytandans. Í hvert sinn sem framleiðendur hafa beðið um lög til að vernda sína starfsemi á kostnað neytandans, hafið þið orðið við því og gefið skít í neytandann. – Þetta hafið þið gert til að skapa atvinnu, til að atvinnan hefði úr meiru að spila. Af sömu ástæðu ættuð þið að gera þetta enn á ný.“

Andmælin bíta jafnt á ykkur sjálfa sem okkur. Þegar menn hafa sagt við ykkur: „Það er hagur neytandans að það sé verslað frjálst með járn, kol, sesamfræ, korn og klæði.“ – „Satt er það,“ segið þið, „en það er ekki hagur framleiðandans.“ – Nú jæja, þótt neytendur hafi hag af frjálsri notkun sólarljóssins, er það ekki hagur framleiðenda.

Og þið hafið líka sagt: „Framleiðandi og neytandi eru líka einn og hinn sami. Ef iðnaðarmaðurinn hagnast af vernd, þá mun bóndinn hagnast líka. Og ef bóndinn hagnast, opnast nýir markaðir fyrir iðnaðinn.“ – Gott og vel, – ef við fáum einokun á lýsingu á daginn, þá munum við í fyrsta lagi kaupa meira af tólg, kolum, olíu, trjákvoðu, vaxi, spritti, járni, bronsi og kristöllum fyrir okkar iðnað. Þar að auki munum við og allir þeir sem sjá okkur fyrir hráefnum, auka okkar neyslu í samræmi við bættan hag og auka velferð allra stétta.

Ætlið þið kannski að segja að sólarljósið sé ókeypis, og að afþakka slíka gjöf sé að skipta á lífsgæðum fyrir peninga til að kaupa þessi sömu lífsgæði í öðru formi?

En gætið þess að þá eruð þið í mótsögn við eigin stjórnarstefnu, gætið þess að fram til þessa hafið þið jafnan spornað gegn erlendum vörum einmitt vegna þess að þær nálgast að vera gefins, og þið hafið spornað því fastar sem þær eru nær því að vera gefins. Þið hafið ekki haft nema hálfa ástæðu til að fara að óskum hinna einokunarmannanna, – í okkar tilviki hafið þið heila ástæðu. Að synja bón okkar af því að við höfum meiri ástæðu, er eins og að setja fram jöfnuna: + x + = – ; eða með öðrum orðum að bæta gráu ofan á svart.

Vinnan og náttúran starfa saman í mismunandi hlutföllum, allt eftir landsháttum og loftslagi, við myndun framleiðsluvöru. Hlutur náttúrunnar er alltaf ókeypis; það er hlutur vinnunnar sem framkallar verðmætið og sem greitt er fyrir.

Ef appelsína frá Lissabon er seld á hálfvirði á við appelsínu frá París, er það vegna þess að þar vinnur hiti náttúrunnar það starf sem manngerður hiti vinnur í seinna tilvikinu, og manngerður hiti kostar sitt.

Þegar appelsína kemur til okkar frá Lissabon, má því segja að við fáum hana að hálfu leyti ókeypis en að hálfu leyti fyrir vinnu; eða með öðrum orðum: á hálfvirði miðað við appelsínuna frá París.

Og það er einmitt af því hún er hálfókeypis (afsakið skringiyrðið) að þið spornið gegn henni. Þið segið: „Hvernig á okkar atvinnustarfsemi að geta keppt við þá erlendu, þegar sú erlenda þarf ekki nema hálfa fyrirhöfn á við okkar, því sólin sér um restina?“ – En fyrst þið spornið við samkeppni af því hún er hálfókeypis, af hverju leyfið þið þá samkeppni sem er alveg ókeypis? Ef það á að vera nokkurt samræmi í þessu, hljótið þið að sporna við samkeppni sem er alveg ókeypis af tvöföldum krafti á við þá sem er bara hálfókeypis.

Semsagt; þegar vara berst okkur erlendis frá, hvort sem það er kol, járn, korn eða vaðmál, og við getum fengið hana með minni vinnu en ef við búum hana til sjálf, þá er mismunurinn gjöf sem okkur býðst. Gjöfin er mismikil eftir því hvort munar miklu eða litlu. Gjöfin er fjórðungur, helmingur eða þrír fjórðu af verðmæti vörunnar, ef erlendi framleiðandinn býður sína vöru á fjórðungi, helmingi eða þrem fjórðu lægra verði en sá innlendi. En gjöfin er alger, þegar framleiðandinn býður vöruna fyrir ekki neitt, eins og sólin gerir. Spurningin er einfaldlega sú, hvort þið viljið leyfa Frökkum að njóta ávaxtanna af ókeypis neyslu, eða strita sem allra mest. Ykkar er valið, en verið nú samkvæmir sjálfum ykkur; því þið spornið við kolum, járni, korni og vaðmáli, og það því meir sem vörurnar nálgast núllið í verði samanborið við innlendu vöruna; hvaða vit er þá í því að leyfa frjálsa neyslu á sólarljósinu, þar sem verðið beinlínis er núll allan liðlangan daginn?

Bænaskráin, Une pétition, er úr Sophismes économiques, 1845.  Hér er stuðst við útgáfu á heildarverkum Frédéric Bastiat frá 1863.  Brynjar Arnarson íslenskaði fyrir Andríki.