Er könnun sem sýnir XD með góðan stuðning ekki örugglega eitthvað gölluð?

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur 35% fylgis samkvæmt skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti í gær. Kannanir MMR í vikunni þar á undan höfðu mælt flokkinn með mun minna fylgi og flesta aðra flokka með meira fylgi.

Þótt niðurstöðurnar hafi komið nokkuð á óvart væri það ekki í fyrsta sinn sem stjórnarflokkur bætti við sig fylgi þegar kosningabarátta fer að stað og svarendur átta sig á því að sjálf alvaran er framundan, kosningarnar sjálfar.

Það varð hins vegar strax ljóst að könnun Fréttablaðsins var mörgum álitsgjöfum og blaðamönnum mikið áfall. Af stað fór mikil skriða frétta- og pistlaskrifa um að könnunina og áreiðanleika hennar. Er nokkuð að marka kannanir Fréttablaðsins? Er aðferðafræði Fréttablaðsins eitthvað skrítin? Var bara hringt í Valhöll?

Nú má bara vel vera að könnun Fréttablaðsins gefi ekki góða mynd af fylgi flokkanna nema hjá einmitt þeim hópi sem Fréttablaðið náði í. Kannski er Sjálfstæðisflokkurinn ekki með 35% heldur 25% eða 45% fylgi.

En hún leiddi þó í ljós mjög áreiðanlega niðurstöðu um það hverjir það eru sem geta jafnvel ekki hugsað sér að Sjálfstæðisflokkurinn hafi smá sigur í könnunum.