Tíu vikur til skattahækkana

Vinstri stjórnin sem gæti tekið við völdum eftir sex vikur verður búin að hækka alla skatta fyrir jól.

Með hverjum deginum sem líður er líklegra að efnt verði til haustkosninga, þótt kjörtímabil Alþingis renni ekki út fyrr en á næsta ári. Enn er þó hægt að hætta við þær.

Á síðustu árum hafa kosningaúrslit, bæði á Íslandi og annars staðar, oft orðið nokkuð fjarri því sem skoðanakannanir bentu til. Jafnvel útgönguspár hafa brugðist og er fólk þar þó spurt hvað það hafi kosið, en ekki hvað það ætli sér að kjósa. Menn verða því að taka skoðanakönnunum með fyrirvara, auk þess sem ólíkar aðferðir við gerð þeirra gera þær mjög misáreiðanlegar. En ef marka má sumar skoðanakannanir mun ný vinstristjórn taka við völdum á Íslandi eftir sex vikur. Fjárlögin sem samþykkt verða í desember verða því fjárlög vinstristjórnar. Það verða skattahækkanir í stað skattalækkana.

Því má komast hjá, með því að hætta við áform um haustkosningar, sem enn er hægt að gera. En þá verða auðvitað vinstrimenn reiðir.

Því miður er enn ekkert sem bendir til þess að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi hætti við að afturkalla eigið umboð, umboð sem gildir fram í apríl 2017. Þess vegna verða menn að búa sig undir vinstristjórn eftir sex vikur og vinstristjórnarfjárlög eftir tíu vikur. Óli Björn Kárason varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins rekur í grein í Morgunblaðinu í morgun, við hverju má búast:

Myndin verður stöðugt skýrari. Vinstri flokkarnir lofa að gera allt fyrir alla. Peningunum verður ausið úr kistum ríkissjóðs að loknum kosningum enda varla það vandamál til í hugum stjórnvalda sem ekki er hægt að leysa með peningum. Horfið verður frá lögbundnum lækkunum skatta og tolla, gamlir skattar endurvaktir, nýir settir á og aðrir hækkaðir. Þannig segjast vinstrimenn ætla að forgangsraða.

Kjósendur vita hvað situr í fyrirrúmi hjá vinstrimönnum. Í erfiðleikum eftir fall fjármálakerfisins var frægum hníf niðurskurðar fyrst og síðast beitt á heilbrigðiskerfið til að hlífa stjórnsýslunni og fjármagna gæluverkefni. Lífeyrisgreiðslur til eldri borgara og öryrkja voru skertar á sama tíma og unnið var að því hörðum höndum að koma skuldum einkafyrirtækis yfir á skattgreiðendur. Eignaskattur var innleiddur og lagðist þungt á eldri borgara með lágar tekjur. Skattar á millistéttina voru hækkaðir með því að innleiða þrepaskipt tekjuskattskerfi með tilheyrandi jaðarsköttum.

Loforð vinstri manna er að innleiða stjórnsýslu og hugmyndafræði meirihluta borgarstjórnar yfir á landið allt. Reykvíkingar þekkja af eigin raun hvernig útgjöldum er forgangsraðað. Þjónusta við eldri borgara er skorin niður og leik- og grunnskólar sitja á hakanum. Borgarfulltrúar ferðast um heiminn til að kynna sér lestarsamgöngur og innheimtur bílastæðagjalda í stórborgum. Í Reykjavík grotna götur niður en hundruðum milljóna er varið í að þrengja meginæðar gatnakerfisins. Reykjavík er orðin höfuðborg holunnar. Kvörtunum um lélegan kost í skólum er mætt með því að hækka álögur á barnafjölskyldur. Borgarsjóður er ekki lengur sjálfbær þrátt fyrir að álögur og gjöld séu í hæstu hæðum.

Vinstristjórnin sem sat við völd 2009 – 2013 var ekki góð. Hún hækkaði skatta jafnt og þétt og bjó til nýja. Vinstrimenn telja yfirleitt að stjórnmálamenn séu betur komnir að eigum borgaranna heldur en borgararnir sjálfir. Verði stjórnarandstöðunni að ósk sinni og nú verði efnt til skyndikosninga og ný vinstristjórn taki við að þeim loknum má búast við nýjum skattahækkunum á fólk.