Hillary fær óvæntan stuðning

Nú var sósíalistanum Donald Trump greitt þungt högg. Fréttastofur um alla evrópu titra. Þar skynja menn að tíðindi hafa gerst. Heimurinn verður aldrei aftur eins.

Stórblaðið New York Times er komið í slaginn. Stórblaðið gat bara ekki setið þegjandi hjá, við aðstæður eins og nú eru uppi. Nú sjá margir hlutina í öðru samhengi. Stórblaðið er búið að vega og meta hlutina og komast að niðurstöðu. Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar.

Í nóvember verða forsetakosningar í Bandaríkjunum. Og nú gerðist það að stórblaðið New York Times lýsti hreinlega yfir stuðningi við frambjóðanda demókrata. Þetta er stórblað. Ekki einhver snepill. Stórblað.

Íslenskir fjölmiðlamenn fylgjast með þessu af mikilli athygli. Þessu er slegið upp enda ótrúleg tíðindi á ferðinni. Í leiðara stórblaðsins segir að það sé vegna „gáfna, reynslu og hugrekkis“ Hillary Clinton sem blaðið hafi ákveðið að styðja hana í forsetakjörinu.
Það er með öðrum orðum ekki vegna þess að „stórblaðið New York Times“ hafi í hverjum einustu forsetakosningum eftir árið 1956 lýst stuðningi við frambjóðanda demókrata. Nei, það er vegna gáfna, reynslu og hugrekkis Hillary. Hún er alveg svakalega hugrökk. Þetta er mikið áfall fyrir Donald Trump sem hafði búist við öflugum stuðningi stórblaðsins.

Vestrænum fréttamönnum finnst alltaf jafn fréttnæmt þegar demókratarnir á New York Times lýsa stuðningi við frambjóðanda demókrata. Þeir kalla blaðið auðvitað alltaf „stórblaðið“ og halda að það sé hlutlaust og óháð rit. Íslenskir blaðamenn halda líka að breska vinstrablaðið Guardian sé hlutlaust og óháð rit sem vitna þurfi í flesta daga. Ef eitthvað gerist úti í heimi er algengast að íslenskir netmiðlar vitni í „umfjöllun Guardian um málið“, þótt ótal aðrir fjölmiðlar fjalli um það og margir betur.

Árið 2008 skrifaði Vefþjóðviljinn af svipuðu tilefni:

Kosningabaráttan í Bandaríkjunum tók nýja stefnu um helgina þegar dagblaðið The New York Times lýsti yfir stuðningi við Barack Obama, frambjóðanda demókrata. Jafnvel á Íslandi þóttu þetta stórtíðindi og vinstrifjölmiðlar eins og Ríkisútvarpið og Morgunblaðið slógu tíðindunum upp, og endursögðu meira að segja að eitt og annað úr leiðara félaga sinna vestanhafs.

Íslensku fjölmiðlarnir sinntu þessum stórtíðindum af næstum sama áhuga og þeir gerðu fyrir fjórum árum þegar The New York Times lýsti jafn óvænt yfir stuðningi við John Kerry, frambjóðanda demókrata.

Eins og Vefþjóðviljinn sagði af því tilefni fyrir fjórum árum þá hefur „stórblaðið“ The New York Times í meira en hálfa öld lýst stuðningi við alla forsetaframbjóðendur demókrata. Í hvert sinn verða íslenskir fjölmiðlamenn verða jafn hissa og spenntir og þeir urðu fjórum árum áður. Enda „stórblað“ á ferð.

Jafnvel árið 1984, þegar Ronald Reagan sigraði demókratann Walter Mondale í 49 ríkjum af 50, studdi New York Times Mondale. Og alltaf er afstaða þessa fyrirsjáanlega „stórblaðs“ jafn merkileg frétt hjá íslenskum fjölmiðlamönnum.