Innan við 4% af útblæstrinum eru frá bílum

Árleg losun gróðurhúsaloftegunda á Íslandi miðað við tölur fyrir árið 2012 í svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Sigríðar Á. Andersen alþingismanns í október 2015.

Í gær veitti alþingi ríkisstjórn heimild til að fullgilda Parísarsamninginn svonefnda um loftslagsmál. Nokkrir þingmenn notuðu þetta tækifæri til að segja nokkur orð um einkabílinn. Hann þurfi að vera svona og svona, skattleggja svona og svona, mismuna svona og svona.

Þó mætti ætla að íslenskir stjórnmálamenn væru búnir að skólast það til í þessum efnum að þeir væru hættir að telja sjálfum sér trú um að þeir gætu stýrt af viti þeirri tækniþróun sem nú á sér stað í bílaframleiðslu. Bílaframleiðendur eru á fleygiferð að þróa bíla sem ganga fyrir fjölbreyttri orku, eru léttari og eyða minna. Það berast daglega fréttir af nýjum áföngum í þeim efnum. Hjal á alþingi Íslendinga hefur lítið með þessa þróun að gera en getur skemmt fyrir eins og dæmin sanna.

Árið 2009 hóf vinstri stjórnin til að mynda átak fyrir notkun Dieselbíla í stað bensínbíla. Það var gert í nafni umhverfisins, grænt og vistvænt. Skattar á bensínbíla og bensín voru þá hækkaðir langt umfram skatta á Dieselbíla. Þá var þó þegar komið í ljós að Dieselbílar menga meira og á verri hátt en bensínbílar. Hvarvetna í Evrópu hafa menn nú viðurkennt að þessi stefna hafi verið mistök.

Á síðasta kjörtímabili voru einnig leiddar í lög kvaðir um „endurnýjanlegt eldsneyti“ í nafni umhverfisins. Lögin hafa leitt til íblöndunar á lífeldsneyti í bæði bensín og Dieselolíu. Þetta eldsneyti er ýmist mikið dýrara í innkaupum til landsins eða inniheldur miklu minni orku sem leiðir til aukinnar eyðslu, fleiri ferða á bensínstöðvar og aukins innflutnings á eldsneyti. Framleiðslan á lífeldsneyti hefur í för með sér skógareyðingu og framræslu votlendis sem leiðir til aukins útblásturs CO2 auk þess að hafa ófyrirséð áhrif á framboð matvæla víða um lönd.

Þetta eru nú afrek íslenskra stjórnmálamanna þegar kemur að því að draga úr mengun frá bílaumferð. Þeir hafa aukið mengunina með aðgerðum sínum og lagt milljarða kostnað á heimilin í landinu.

Og hver er svo hlutur einkabílsins í útblæstrinum sem þessi mikla barátta stendur gegn? Jú hann er innan við 4% af árlegri heildarlosun gróðurhúsalofttegunda.

Einkabíllinn skiptir nánast engu máli hvað losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi varðar.

Stóri útblástursliðurinn er framræst votlendi þar sem lífmassi er að brenna upp eftir að stjórnmálamenn styrktu landeigendur í áratugi til að grafa 30 þúsund kílómetra af framræsluskurðum á landi sem aldrei verður nýtt til landbúnaðar.