Orð og störf frambjóðenda

Mynd: Ane Cecilie Blichfeldt / norden.org.

Öfugt við það sem stjórnarandstöðuþingmenn, álitsgjafar og margir fréttamenn vilja knýja fram, er ekki búið að ákveða að þingkosningar fari fram í haust. Tveir ráðherrar hafa sagt að verði öll mikilvægustu frumvörp samþykkt verði kosningum flýtt og þá komi til greina að kjósa í lok október. Þetta er allt og sumt.

En hvort sem kosið verður í október, eins og sagt var í viðtali í vor, eða apríl á næsta ári eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir, eru flokkarnir byrjaðir að velja á framboðslista. Það er ekkert nýtt að prófkjör fari fram að hausti þegar kosningar eru að vori. Sjálfstæðisflokkurinn heldur prófkjör, Benedikt Jóhannesson velur Evrópusinna á lista Viðreisnar og í fréttatilkynningum ræða þær öll mál nema Evrópusambandið, Píratar halda prófkjör þar sem kjósendur eru álíka margir og frambjóðendur sjálfir og makar þeirra. Að því búnu eru niðurstöðurnar „felldar í landskosningu Pírata“. Vinstrigrænir halda forval í einu kjördæmi og þurfa svo að endurtaka það því kjörseðlarnir voru ónothæfir. Samfylkingin mun svo halda prófkjör þar sem Árni Páll Árnason sigrar með einu atkvæði og í ljósi sterkrar stöðu flokksins verða lokatölur þær að Árni Páll fær ekkert atkvæði en mótframbjóðandi hans mínus eitt.

Nú í dag halda sjálfstæðismenn prófkjör í norðvesturkjördæmi og í Reykjavík. Því fylgja svo prófkjör í suðvesturkjördæmi og suðurkjördæmi.

Hvernig eiga frjálslyndir menn að verja atkvæði sínu?

Þeir ættu að horfa á orð og störf frambjóðenda og þá ekki aðeins síðustu vikur og mánuði.

Hvaða frambjóðendur hafa með orðum eða verki síðustu ár barist fyrir frelsi og minnkandi ríkisafskiptum? Hverjir hafa barist fyrir lægri sköttum á fólk og atvinnulífið?

Hvernig hafa kjörnir fulltrúar greitt atkvæði? Hvernig hafa menn beitt sér opinberlega, sérstaklega á þeim tíma þegar þeir voru ekki búnir að ákveða að fara í framboð?

Hverjir börðust gegn Icesave, innan eða utan þings? Hverjir þögðu um Icesave?

Hefur frambjóðandinn lýst skýrri afstöðu til Evrópusambandsins? Ef ekki, þá er það líka mjög athyglisvert.

Hefur frambjóðandinn opinberlega lýst afstöðu sem hann vissi þá að yrði óvinsæl hjá þorra fólks? Eða hefur frambjóðandinn kannski aldrei talað fyrir óvinsælum skoðunum?

Þegar kjósandinn skoðar hvern frambjóðanda ætti kjósandinn að hugsa: Hvað veit ég raunverulega um skoðanir þessa frambjóðanda? Hvað hefur þessi frambjóðandi gert til að berjast fyrir þeim skoðunum? Hvernig mun þessi frambjóðandi starfa í þingflokki og þingnefndum, þar sem ég sé ekki til hans. Mun þessi frambjóðandi berja í borðið á þingflokksfundi og krefjast skattalækkana og niðurskurðar? Eða mun fylgja fjöldanum í hvert sinn sem fjöldinn gefst upp fyrir rétttrúnaðinum?